140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:16]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við sjáum hér merki um þá tilfærslu á fjármunum sem hefur átt sér stað þar sem atvinnulausum ungmennum hefur verið gefinn kostur á því að fara í nám. Þetta gefur okkur möguleika á því að minnka framlög til atvinnuleysisbóta um nærri 1.300 milljónir. Þetta skiptir gríðarlegu máli því að eins og við þekkjum er langstærstur hluti þeirra ungmenna sem eru á atvinnuleysisskrá einungis með grunnskólamenntun. Það besta sem við getum gert fyrir þetta fólk er að opna því leið inn í skólana.

Þetta er sömuleiðis merki um að þessi ríkisstjórn hefur náð atvinnuleysinu úr 9% niður í 6,5%. Það munar um minna. Fyrir örfáum missirum settum við í Atvinnuleysistryggingasjóð 25 milljarða sem komu beint úr atvinnulífinu. Þessi tala er núna komin niður í 20. Það munar um minna.