140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:25]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri atkvæðagreiðslu sem hér fer fram. Það er afskaplega mikilvægt að við stöndum að baki traustu fjármálaeftirliti í landinu. Við erum að fela Fjármálaeftirlitinu ný verkefni, eftirlit með skilanefndum og slitastjórnum sem hingað til hafa gengið eftirlitslausar. Treystir þingið sér ekki til að fjármagna þau verkefni? Það er meðal annars það sem hér er verið að greiða atkvæði um.

Við erum að tryggja Fjármálaeftirlitinu fjárveitingar til að halda áfram rannsóknum á hruninu. Vilja menn það ekki?

Við erum að tryggja Fjármálaeftirlitinu tækifæri til að það verði betur í stakk búið til að rannsaka áhættu sem það hefur ekki getað rannsakað hingað til. Það er staðfest af erlendum sérfræðingum og greiningum þeirra. Vilja menn ekki að Fjármálaeftirlitið geti rannsakað almennilega í fjármálafyrirtækjunum hluti sem fyrir liggur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að eftirlitið var ekki í stakk búið að sinna áður? Auðvitað verðum við (Forseti hringir.) að fjármagna eftirlitið þannig að það geti sinnt þessum verkefnum. Þessi kostnaður mun síðan fara lækkandi á næstu árum, en það er nauðsynlegt að bregðast við því sem eftirlitsaðilar (Forseti hringir.) og sérfræðingar segja okkur að við þurfum að gera.