140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég styð þessa tillögu meiri hluta fjárlaganefndar eins og aðrar sem hún leggur fram, en ég geri það í þessu tilviki með sérstakri vísan til þess sem segir í nefndaráliti meiri hlutans, að fyrirkomulag og umbúnaður um fjárheimildir til handa Fjármálaeftirlitinu verði tekið til gagngerrar endurskoðunar á næsta ári sem og metin þörfin fyrir umfang þessarar starfsemi. Það er ekki um það deilt að Fjármálaeftirlitið þarf að vera öflugt á þessum tíma og það þarf að vinna úr ýmsum verkefnum en það er eðlilegt að þingmenn staldri við þá staðreynd að rekstrarumfang þessarar stofnunar hefur rúmlega þrefaldast að raungildi frá árinu 2007.

Það er misskilningur að fjármálaráðuneytið hafi ekki skilning á mikilvægi Fjármálaeftirlitsins. Það sem okkur hefur hins vegar gengið til og við höfum viljað skoða og tryggja er að réttar reglur um fjárheimildir, í þessu tilviki, séu virtar, að fjárstjórnar- og fjárlagavald Alþingis sé ekki selt út í bæ heldur sé það á réttum stað í samræmi við stjórnarskrá og landslög. Við hljótum síðan (Forseti hringir.) að binda vonir við að það dragi hratt úr þessum mikla kostnaði á næstu árum því að þetta leggur að sjálfsögðu umtalsverðar byrðar á fjármálastarfsemi í landinu.