140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að við erum að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2012. Ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir vel unnin og vönduð störf. Ég sé að vísu á fáeinum mótatkvæðum að einhverjir geta hugsað sér að íslenska ríkið hafi engin fjárlög þegar 1. janúar á næsta ári rennur upp og það væri fremur óbjörgulegt ástand því að helst þarf að vera hægt að greiða út laun og reka þjóðfélagið þegar þar að kemur.

Aðalatriðið er að niðurstaðan er mjög ásættanleg og það er gott að fá tímanlega afgreiðslu fjárlaga vegna þeirra fjölmörgu stofnana og forstöðumanna sem þurfa að búa sig undir framkvæmd þeirra á næsta ári. Þessi niðurstaða staðfestir mikinn árangur sem náðst hefur í að ná niður hallarekstri ríkissjóðs. Þessi halli er innan við 1/10 af halla ársins 2008 og innan við 1/7 af halla ársins 2009. Niðurstaða á þessum nótum er tvímælalaust gott veganesti fyrir Ísland inn í framtíðina, mun treysta lánshæfismat landsins (Forseti hringir.) og leggja sterkan grunn að áframhaldandi uppbyggingu og endurreisn í efnahagslífi okkar.