140. löggjafarþing — 33. fundur,  7. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[18:50]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir einstaklega gott samstarf, skemmtilegt og málefnalegt. Þá þakka ég riturum nefndarinnar sérstaklega fyrir frábæra vinnu undir miklu álagi.

Hallalaus og skuldlítill ríkissjóður er forsenda fyrir hagsæld til framtíðar og þess vegna höfum við í stjórnarflokkunum þurft að auka skatta og skera niður útgjöld. Það er vel við hæfi að samþykkja þriðju fjárlög ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sama dag og Hagstofan birtir okkur tölur um að land sé svo sannarlega að rísa vegna aukins útflutnings og betri stöðu heimilanna. Ábyrgar en erfiðar og stundum óvinsælar aðgerðir stjórnarmeirihluta Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru farnar að skila árangri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)