140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fá tækifæri til að ræða um heilbrigðismál. Hv. þingmaður ræðir hér sérstaklega að illa hafi verið staðið að fjárlagagerðinni tvö ár í röð og að vissu leyti get ég alveg tekið undir það. Það er ekki gott að við þurfum að standa í því að draga til baka, bæta í og annað slíkt en það sýnir bara, eins og ég hef sagt í umræðunni um fjárlagagerðina, að við byggjum á gömlum grunni. Það þarf að endurskoða vinnubrögðin við fjárlagagerðina þar sem við tökum svona stefnumótandi ákvarðanir.

Það er alveg hárrétt að það er víða alvarleg staða í heilbrigðismálum á landsbyggðinni. Við verðum samt líka að horfast í augu við það að með bættum samgöngum og breyttum kröfum breytist að sjálfsögðu starfsemi heilbrigðisstofnana vítt og breitt um landið, hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða úti um landið. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki mjög vel til þeirra heilbrigðisstofnana sem hv. þingmaður talaði um. Ég þekki betur til stofnana sem eru svolítið austar, þeirra sem eru í mínu nærumhverfi. Að sjálfsögðu þurfa allar stofnanir að vera starfhæfar og ég tel að unnin hafi verið mjög góð vinna af hálfu velferðarráðuneytisins þar sem farið var í allar stofnanir og unnið með forstöðumönnum að því að finna leiðir. Forstöðumenn stofnananna eiga líka hrós skilið því að þeir voru mjög tilbúnir að vinna með stjórnvöldum að því að finna leiðir.

Í sambandi við þetta með pottinn verð ég að viðurkenna að ég veit ekkert um hann en mér finnst frekar hæpið að stjórnarþingmenn séu byrjaðir að hringja. Þetta var bara samþykkt í gær. Ég get alveg verið sammála því að þetta er ekki góður háttur að öllu leyti, en að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hafa eitthvað upp á að hlaupa. Þar að auki hefur ráðuneytið boðið þeim heilbrigðisstofnunum sem á ráðgjöf þurfa að halda til að finna leiðir til að mæta þeim samdrætti sem orðið hefur þannig að ýmislegt hefur verið gert á vettvangi ráðuneytisins til að vinna að þessum málaflokki.