140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst út af því síðasta sem hér var rætt, það er áberandi við fjárlagagerðina í ár, eins og í fyrra raunar líka, að í stað þess að mörkuð hafi verið einhver heildarstefna á sviði heilbrigðismála, þ.e. hvaða þjónustu eigi að veita hvar, eru teknar tilviljanakenndar ákvarðanir við undirbúning fjárlaga ár eftir ár sem hafa veruleg áhrif á það hvernig þessi mál þróast. Í stað þess að vinna stefnumörkun á þessu sviði á vegum velferðarráðuneytis og eftir atvikum þingsins eru teknar ákvarðanir krampakennt á síðustu dögum fjárlagaafgreiðslunnar sem hafa veruleg áhrif í þessum efnum. Það eru ekki góð vinnubrögð og ber að átelja.

Varðandi fjárlagagerð að öðru leyti vek ég athygli á því að það er rétt sem fram hefur komið að verið er að afgreiða fjárlög fyrr en oft áður. Þau voru afgreidd frá þinginu í gær og það er í sjálfu sér ágætt svo langt sem það nær. Ég vek hins vegar athygli á því að miðað við dagskrá dagsins í dag og næstu daga í þinginu er veigamikill þáttur sem varðar fjárlögin enn óafgreiddur, veigamiklir þættir sem varða tekjuöflun. Það er búið að ákveða fjárlögin, það er búið að festa útgjöldin niður og samtölur varðandi tekjur, en núna eru að koma inn í þingið hin og þessi tekjuöflunarfrumvörp sem okkur verður sjálfsagt sagt að sé nauðsynlegt að samþykkja af því að búið sé að ákveða útgjöldin. Þetta heitir að gera hlutina í öfugri röð. Það eru meira en 20 stjórnarfrumvörp á dagskrá þingsins í dag, 1. umr. mál, og helmingurinn af þeim snýst um einhvers konar gjaldtöku (Forseti hringir.) í tengslum við fjárlögin. Árangurinn af því að afgreiða fjárlögin hratt er ekki meiri en svo að tekjuhliðin er enn að stórum hluta óafgreidd.