140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef verið að velta fyrir mér tveim atkvæðagreiðslum um fjárlagafrumvörp, annars vegar fjárlagafrumvarp ársins í ár, atkvæðagreiðslu sem fór fram haustið 2010 á svipuðum tíma og við erum nú á hér, og hins vegar þeirri atkvæðagreiðslu sem fór fram í gær.

Í atkvæðagreiðslu um eitt tiltekið mál í desember 2010 fyrir fjárlög ársins 2011 voru greidd atkvæði um sameiginlega tillögu fjárlaganefndar um bólusetningu á ungum stúlkum gegn leghálskrabbameini, ákaflega þarft og gott mál að mati okkar í fjárlaganefnd á þeim tíma. Það hafði verið rætt í þingnefndum og nokkur einhugur var um að þar væri á ferðinni mál sem allir ættu að geta stutt og ætti að hafa góðan stuðning á þingi. Það fór samt þannig að fjórir þingmenn treystu sér ekki til að styðja þá tillögu, hugsanlega af ýmsum sökum, hugsanlega af þeim prinsippástæðum að fólk vill hvorki láta bólusetja sig né að aðrir séu bólusettir, en aðrir vegna þess að þeir voru að lýsa andúð sinni á ríkisstjórninni og létu hana koma fram með þeim hætti að þeir treystu sér ekki til að styðja mál af þessu tagi.

Í gær var mál af svipuðum toga til afgreiðslu, breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar um að setja fé í samevrópskt verkefni undir nafninu Vitundarvakning, þ.e. stjórnvöld í öllum löndum Evrópu eru að ráðast í verkefni til að sporna við kynferðislegu ofbeldi gegn litlum börnum og einelti gegn börnum. Þá kom í ljós að stór hluti þingsins treysti sér ekki til að styðja það mál heldur. Þar held ég að hafi verið um að ræða pólitíska afstöðu, þ.e. fólk treysti sér ekki til að styðja tillöguna vegna andstöðu sinnar við ríkisstjórnina eða fjárlagafrumvarpið. Ég ætla það engum, svo ég taki það skýrt fram, að vera í hjarta sínu á móti slíkum málum en mér finnst umhugsunarvert (Forseti hringir.) hvernig á því stendur að þingmenn geta ekki sameinast á bak við góð mál eins og þarna um ræðir.