140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Á árum áður voru tveir þingmenn mjög áberandi í umræðu um jafnrétti og spillingu. Það voru núverandi formenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Nú vill svo til að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur spilling aukist, Ísland er komið niður í 13. sæti í spillingu þjóða, er mest spillt af öllum Norðurlöndum, og jafnrétti hrakar samkvæmt nýjustu könnunum.

Maður spyr sig: Hvernig stendur á þessu? Mikið er talað og það skyldi nú ekki vera að með því að tala mikið gerist minna. Talað er um jafnréttisáætlanir, Jafnréttisráð, jafnréttisiðnað og ég veit ekki hvað, en ekkert gerist, okkur hrakar. Það er mjög mikilvægt að jafnréttis sé gætt. Af hverju? Þegar jafnréttis er ekki er gætt, og þá er ég ekki bara að tala um jafnrétti á milli kynja, er ekki hver staða mönnuð því fólki sem hæfast er. Það er einhver óhæfari ráðinn fram yfir þann hæfari. Þjóðfélagið tapar á því, fyrir utan allt óréttlætið og hvað það getur verið ósiðlegt þegar óhæfur maður er ráðinn í stöðu bara af því að hann er karl eða bara af því að hann er í þessum flokki eða eitthvað slíkt. Það verðum við að forðast og ég skora á hv. Alþingi að taka sér tak í því að reyna að laga það, ekki bara með orðum, ekki bara með jafnréttisáætlunum heldur líka með því að minnka spillingu og auka jafnrétti kynja og jafnrétti milli fólks almennt.