140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir góð orð en um leið undirstrika ég að hvað sem líður öllum góðum orðum þá sýna allar mælistikur að veruleg eftirgjöf er á sviði jafnréttismála og það gerist á vakt vinstri stjórnarinnar. Það verður að segja hlutina eins og þeir eru og mig undrar það nokkuð að þetta skuli ekki vekja meiri athygli þeirra sem hafa haft hátt í gegnum tíðina þegar kemur að jafnréttismálum og hugsa ég til m.a. Femínistafélagsins og þeirra sem haldið hafa uppi öflugri gagnrýni innan háskólans. Hvar er Jafnréttisstofa o.s.frv.? Ég hvet þau líka til að sýna stjórnvöldum aðhald í þessum mikilvæga málaflokki.

Aðeins örstutt vegna orða hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan, bara þannig að það sé dregið fram, þá vita allir að við erum í grundvallaratriðum ósammála um marga hugmyndafræðilega þætti, ég vil einfaldara skattkerfi, lægri skatta o.s.frv., en mér fannst samt vert að hlusta á það sem hv. þingmaður sagði um fjárlagagerðina. Það hefur vakið mig til umhugsunar, líka þegar ég var í hv. fjárlaganefnd, um að ég tel að fólk úti í bæ sem fylgist með atkvæðagreiðslum og skýringum af hálfu stjórnarþingmanna og stjórnarandstæðinga skilji ekki alltaf hvað er um að vera, ég er ekki alveg viss um að almenningur skilji hvað er í gangi hérna. Ég held að það séu fleiri mál en færri sem sameina þingið. Það er skoðun mín. Ég held að við getum sameinast um að bæta verklagið enn frekar varðandi fjárlagagerðina. Mjór er mikils vísir og ég tel að við höfum sýnt það þvert á flokka þegar við fórum í mjög erfiða aðgerð varðandi safnliðina. Okkur hefur að hluta til tekist ætlunarverkið, ekki algerlega en að hluta til, og ég held að við eigum að einbeita okkur að því að reyna að útskýra fyrir almenningi að við getum sameinast um ákveðin málefni, hvort sem það eru bólusetningar á mikilvægum sviðum, eineltisáætlanir eða hvað það nú er sem við viljum sameinast um. Ég held að lykillinn að því sé bætt verklag innan (Forseti hringir.) hv. fjárlaganefndar.