140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta er að verða ákaflega notaleg morgunstund í þinginu, fáir mættir. Þetta er að verða dagskrárliður sem mætti vera oftar, þar sem þingmenn geta átt skoðanaskipti á þessum nótum (Gripið fram í.) af og til.

Rætt hefur verið um ýmis málefni, m.a. um spillingu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi um spillingu og að Ísland skuli nú vera fallið úr 1. sæti í 13. sæti hvað þetta varðar. Ef ég man rétt var Ísland eitt minnst spillta land í heimi lengst af. Annað kom svo í ljós þegar farið var að skoða mælinguna betur, þá kom í ljós að menn voru að mæla einhverja vitleysu í þeim efnum. Síðan hefur verið lögð ný mælistika á reynsluna sem við búum að í þeim efnum, rannsóknarskýrsluna og fleira, og kemur nú í ljós að Ísland er á öðrum stað statt en við héldum og vonuðumst til. Víst héldu mörg okkar að hér á landi væri spilling varla til, hún væri landlæg í öðrum löndum. Önnur lönd ættu við mikinn vanda að etja varðandi spillingu í stjórnmálum og viðskiptum, tengsl viðskipta og stjórnmála og síðan spillingu innan viðskiptalífsins, en að það ætti svo sannarlega ekki við um Ísland. Annað kom í ljós og ég hugsa að ef náðst hefði að mæla það sem þá var að gerast hér á landi fyrir fimm, sex, átta eða tíu árum, held ég að menn hefðu verið ánægðir með 13. sætið, virðulegi forseti.