140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hvet ég hann til að hugsa þau aðeins betur. Ísland getur aldrei verið ánægt með að vera í 13. sæti á lista yfir spilltustu þjóðirnar, (Forseti hringir.) aldrei á einum einasta tímapunkti, og hvet ég hv. þingmann til að taka þá mælingu ekki létt jafnvel þó að maður geti fundið eitthvað einhvers staðar sem ekki er gott.

Það er búið að vera fróðlegt að hlusta á umræðuna í dag og það hefur algerlega verið staðfest að það er engin stefna í heilbrigðismálum hér á landi. (Gripið fram í.) Hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir segir að verið sé að vinna eftir lögunum 2007. Þá er það staðfesting á því að það er engin stefna í heilbrigðismálum. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa lögin frá árinu 2007. Það er ekki stefnumótun í heilbrigðismálum. Það er rammi utan um heilbrigðismálin og var öllum það ljóst sem samþykktu lögin að mikið þyrfti að vinna í stefnumótun í kjölfarið. Það var gert þangað til núverandi hæstv. ríkisstjórn kom til valda. Þá var því hætt. Um 100 manns úti um allt land unnu að breytingum í kjölfar bankahrunsins. Slíkir hópar voru leystir upp. Það voru heimamenn á hverjum stað sem unnu að stefnumótun en hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra leysti það allt saman upp.

Við, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, báðum um fund í velferðarnefnd í haust þegar sýnt var að þessi fjárlög yrðu með einhverjum þeim hætti og raun varð á, en því var hafnað, því miður, virðulegi forseti. Það hefði ekki leyst allan vanda (Forseti hringir.) en það hefði getað gefið okkur betri tíma til að fara yfir þessi mál.

Síðan hvet ég hv. þm. Þuríði Backman og tek undir með henni þegar hún talar um mislingamálið. Ég treysti því að hv. velferðarnefnd fari vel yfir það mál sem allra fyrst.