140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vakti athygli í fyrri ræðu minni á hinu lága fjárfestingarhlutfalli, hversu lítið atvinnuvegir þjóðarinnar fjárfesta, og benti á að í sögulegu samhengi værum við ekki búin að ná okkur upp af þeim botni sem við lentum á. Þær prósentubreytingar sem gerðar voru að umtalsefni m.a. af hálfu hæstv. fjármálaráðherra í gær um vöxt fjárfestinga atvinnulífsins, segja því miður ekki aðra sögu en þá að fjárfestingar hafa ekki aukist. Af hverju er svo mikilvægt, frú forseti, að fjárfestingarnar aukist? Enn og aftur: Hagvöxtur sem drifinn er áfram af einkaneyslu sem á sér ekki stoðir í aukinni verðmætasköpun, í aukinni fjárfestingu, hlýtur að vekja áhyggjur.

Fyrir nokkrum árum mældist ágætur hagvöxtur og meira að segja mikill en þegar menn fóru að skoða nánar og sundurgreina hvernig hann var saman settur blasti við mynd sem sýndi að það var ekki sjálfbær hagvöxtur. Þegar við skoðum þá mynd sem blasir nú við sjáum við það sama. Það er ástæða til að hafa alveg gríðarlega miklar áhyggjur af þessum þætti málsins vegna þess að ef fjárfestingarnar halda áfram að verða svona litlar eins og þær virðast ætla að vera í ár, eins og þær voru í fyrra, munum við ekki ná að lyfta upp lífskjörum í landinu. Þá munum við ekki ná að styrkja kaupmáttinn og þá munum við ekki ná að auka tekjur ríkissjóðs til að standa undir þeirri velferð sem við viljum gjarnan gera. Það er alveg lykilatriði. Það er fjárfestingin og reyndar líka framleiðniaukningin. Ef það gengur ekki er alveg sama þó að við plötum okkur í einhvern smátíma (Forseti hringir.) með falskri einkaneyslu, það mun ekki hjálpa okkur út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.