140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

virðisaukaskattur.

317. mál
[11:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi undanþáguna aftur, hvað varðar sem sagt virðisaukaskatt á aðgangseyri að innlendum kvikmyndum, ætla ég kannski ekki að hafa mörg orð um hana önnur en þau að segja að það er ekki að ástæðulausu að fjármálaráðuneytið er mjög áhugasamt um að ná þeirri undanþágu út. Það eru ástæður fyrir því en ég ætla auðvitað ekki að halda því fram að það fyrirkomulag sem verið hefur við lýði alllengi fái ekki staðist. Það má vissulega varpa fram þeirri spurningu eins og hv. þingmaður gerir því að það stingur að sjálfsögðu dálítið í stúf og auðvitað geta menn litið svo á og reynt að verja þá víglínu að hér sé um beinan stuðning við innlenda kvikmyndagerð að ræða, en þá er þetta gallað form til að koma þeim stuðningi til skila. Það er miklu betra að gera það með beinum hætti, eins og stjórnvöld hafa að sjálfsögðu heimildir til, og stuðla að og hlúa að menningarstarfsemi af því tagi með beinum styrkjum í gegnum kvikmyndasjóði eða annað slíkt.

Varðandi undanþáguna hvað varðar virðisaukaskatt á byggingarstað eða vinnu á byggingarstað er það alveg rétt að það er að sjálfsögðu ekkert gallalaus aðferð frekar en nein önnur í þessum efnum. Ég held þó að í það heila tekið hafi reynslan af þessu verið góð og mjög jákvæð og það er almennt viðurkennt, tölur úr skattinum sýna það, bæði fjöldi umsókna sem hefur aukist mjög mikið undanfarin tvö ár eða tæp þrjú ár sem þetta hefur verið við lýði og einfaldlega umfang endurgreiðslunnar sem hefur nálægt því tvöfaldast frá 2008. Ég held að flestum sem til þekkja beri saman um að umsvifin hafi aukist umtalsvert. Síðan er þetta almennt talið mjög hjálplegt við að koma vinnu af þessu tagi upp á yfirborðið og berjast þannig gegn svartri atvinnustarfsemi. Enn um sinn að minnsta kosti held ég að það standi góð og gild rök fyrir því að framlengja þessa undanþágu.