140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[11:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að allir ættu að leggja sitt af mörkum til að leysa úr vandræðum heimilanna í landinu. Það væri gott ef það væri rétt en það er bara ekki rétt vegna þess að í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, um A-deild lífeyrissjóðsins í 4. mgr. 13. gr., ber stjórninni að hækka iðgjald ríkisins og opinberra aðila til A-deildarinnar úr 8% í það sem dugar til að jafnvægi sé náð. Núna vantar 45 milljarða í þennan sjóð. Ég skil ekkert í því af hverju stjórnin hefur ekki farið samkvæmt þessari grein. Kannski er það vegna þess að það hefði þýtt 4 milljarða hjá ríkissjóði í aukin iðgjöld sem varð að fela.

Hver er afleiðingin af þessum álögum, sem ásamt stórhækkuðu framlagi til FME, stórhækkuðu framlagi til umboðsmanns skuldara og tveimur öðrum greinum hér, auka álögur á lífeyrissjóðina almennt? Þetta kemur niður á almennu sjóðunum. LSR og aðrir opinberir sjóðir, sjóðir sveitarfélaganna og annarra hækka iðgjaldið samkvæmt lögum og réttindin standa. En hinir sjóðirnir hafa engan bakhjarl og þeir eru í mjög slæmri stöðu, þeir ná núna ekki því 3,5% vaxtaviðmiði sem um er rætt. Það er komið niður í 2,2% og það verður því að skerða lífeyri mjög alvarlega á þeim bæjum eða hækka iðgjaldið eða hækka ellilífeyrisaldurinn. Það leggja því ekki allir jafnt af mörkum. Opinberir starfsmenn leggja ekkert af mörkum. Allir hinir almennu sjóðirnir, sjóðir verkamanna og iðnaðarmanna þessa lands, verða látnir blæða fyrir þetta.

Ég hef varað við því aftur og aftur að leggja ekki álögur á lífeyrissjóðina nema réttindi opinberra starfsmanna séu jafnframt skert. Ég bíð eftir því og spyr hæstv. ráðherra: Stendur til að lækka réttindi opinberra starfsmanna í A- og B-deild til að mæta þessum álögum?