140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður hlustar á ræðu hæstv. ráðherra mætti ætla að hann væri nýr á þingi og hefði ekki komið að neinu. Mér finnst að hann ætti að vera maður að meiri og segja eins og er, að þær ríkisstjórnir sem hann hefur hvað mest gagnrýnt gengu í það að greiða niður skuldir hins opinbera og greiddu meðal annars mjög myndarlega inn á þessar lífeyrisskuldbindingar. Það er algerlega ný frétt ef núverandi hæstv. fjármálaráðherra hafi verið sérstakur stuðningsmaður þess almennt að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir. (ÁÞS: Margur heldur mig sig.) Svo mikið er víst að sá söngur heyrðist ekki þegar hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu og hann þekkir það ágætlega. Og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, úr því að hann gapir hér á ræðustólinn, ætti að þekkja það betur en flestir en hann ber kannski einna mesta ábyrgð á því ásamt mörgum öðrum að fara í stórfellda skuldasöfnun hjá sveitarfélögunum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ef við snúum okkur að þessu máli er verið að ræða nokkra hluti. Ég hef áhyggjur af vikmörkunum og ég vildi bera það undir hæstv. ráðherra að þetta snúist fyrst og fremst um að fresta vandanum. Við getum karpað hér um fortíðina og ég er alveg til í það en ég held að við verðum að tala eitthvað um framtíðina og öll berum við þar ábyrgð, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Ég held að við komumst ekki hjá því að nálgast þessa mismunun varðandi opinberu lífeyrissjóðina og almenna markaðinn. Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal að við þurfum að ræða það af fullri alvöru og það er ekki verri tími núna en hver annar en að gera það í þessari umræðu.

Varðandi sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri skynsamlegra að fara í leiðréttingar á fasteignalánasöfnunum í stað þess að (Forseti hringir.) einbeita sér að vaxtaniðurgreiðslu sem er svo sannarlega ákveðin lausn en fyrst og fremst tímabundin.