140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get komið með upplýsingar handa hv. þingmanni og öðrum ef þess er óskað um inngreiðslurnar eins og þær voru. Ég skoðaði þetta fyrir ekki löngu síðan. Þær fóru sæmilega af stað í kjölfar lagasetningarinnar 1997 og á árunum um aldamótin má segja að inngreiðslur hafi verið með svona sæmilega myndarlegum hætti en það sorglega er að þær drógust síðan saman á árunum eftir það, einmitt þegar kjöraðstæður hefðu verið til að halda áfram að greiða myndarlega inn á þessar skuldbindingar. Ef við tökum bara B-deildina sem dæmi hefði hjálpað alveg óskaplega til þó að ekki hefðu verið greiddir inn nema fáeinir tugir milljarðar á árunum 2004, 2005, 2006, 2007. Það hefði lengt þann tíma sem við höfum til að takast á við þennan vanda.

Varðandi vikmörkin er lagt til að þau verði þrepuð niður. Með því erum við auðvitað að sýna í verki að ekki stendur til að framlengja þetta ástand til langs tíma. Við bindum vonir við að það víðtæka samstarf og samráð sem núna er á sviði lífeyrismála leiði til niðurstöðu á næstu mánuðum þannig að framtíðarmyndin teiknist upp í þessum efnum. Það er rétt sem hv. þingmenn hafa nefnt hér að það er mjög mikilvægt að ná utan um þessi mál, þar með talið að sjálfsögðu framtíðarskuldbindingar í opinberu sjóðunum og hjá ríki og sveitarfélögum en líka sambúð kerfanna vegna þess að sú ólíka staða sem uppi er með ábyrgð hins opinbera á þeim sjóðum annars vegar og hins vegar með almennu sjóðina sem verða að skerða réttindi félaga sinna þegar ávöxtun er léleg, er viðvarandi núningsflötur í þeim samskiptum.

Stefna þarf að einu samræmdu sjálfbæru lífeyrissjóðskerfi sem er sem allra hliðstæðast fyrir allan vinnumarkaðinn.