140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mjög gott að taka saman hvað hefur verið greitt niður af skuldum og greitt inn á skuldbindingar lífeyrissjóða, sérstaklega opinberu lífeyrissjóðanna, síðustu áratugi. Sem betur fer lánaðist okkur að greiða niður skuldir ríkisins og ég held að það væri mjög gott að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það og ég hvet hann til að ganga í það. Það hefur ekki verið upplýst nógu vel. Ég held að ágætt væri að skoða ekki bara ríkið heldur líka sveitarfélögin. Það væri mjög skynsamlegt og gott fyrir umræðuna, sérstaklega til að koma í veg fyrir að við gerum sömu mistök aftur því að þó svo við höfum greitt niður skuldir ríkisins gerðist það svo sannarlega ekki hjá sveitarfélögunum. Þegar menn skoða núna stöðu lífeyrissjóðanna er staða opinberu lífeyrissjóðanna áberandi verst.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði hæstv. ráðherra af hverju ekki var farið eftir 13. gr. um A-deild lífeyrissjóðsins en í 4. mgr. segir svo, með leyfi forseta:

„Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi atvinnurekenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar.“

Þetta er mjög skýr lagagrein og ef ég skildi hv. þingmann rétt var hann bara að spyrja: Af hverju er ekki farið eftir henni? Það væri mjög fróðlegt að heyra svar hæstv. ráðherra.

Síðan spurði ég hæstv. ráðherra um vaxtaniðurgreiðslur og bið hann að koma inn á það, þetta snertir í raun húsnæðismálin almennt og þó að það tengist þessu óbeint höfum við alltaf farið þar í vaxtaniðurgreiðslur. Nú virðist sem að lánasafnið sem lífeyrissjóðirnir eru búnir að lána sjálfir og þó sérstaklega að fjármagna í gegnum Íbúðalánasjóð, standi ekki, við erum enn þá með bólu þar. Væri ekki skynsamlegra að leiðrétta það almennt í stað þess að leggja alla áherslu á vaxtaniðurgreiðslu?