140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið farið í að hækka iðgjöldin í LSR og LH er einfaldlega sú að í lögin var sett þetta bráðabirgðaákvæði um að lyfta tímabundið 10% af þakinu upp í 15%. Skilningur okkar í fjármálaráðuneytinu og stjórn hefur verið sá að það tæki að sjálfsögðu einnig til opinberu sjóðanna. Það hefur FME hins vegar dregið í efa og er ágreiningur um lagatúlkun. Til að taka af allan vafa um að sú heimild sé til staðar hefur þegar verið flutt frumvarp þar um og það er til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd. Eins og hér er lagt til að framlengja undanþáguna fyrir almennu lífeyrissjóðina verður þannig sömuleiðis framlengd með ótvíræðum hætti undanþága fyrir opinberu sjóðina í sjálfstæðu frumvarpi þar um.

Varðandi skuldamálin og vaxtaniðurgreiðslur held ég, óháð því í sjálfu sér hvaða úrræðum menn beita eða aðgerðum hliðstæðum við 110%-leiðina eða slíkt gagnvart þeim lakast settu, hafi það mikið gildi að vera með öflugt vaxtabótakerfi, tekjutengt að hluta eins og það er í dag, og styðja þannig til viðbótar sérstaklega við bakið á tekjulægri hópunum sem eru með þunga greiðslubyrði vegna íbúðarhúsnæðis. Það er hinn almenni þáttur stuðningsaðgerðanna sem kemur öllum fjöldanum til góða. Það er sjálfstæð umræða að sjálfsögðu, sem við höfum kannski ekki tíma til að taka hér en við þekkjum hana, hvað menn hafa gert í sambandi við skuldamálin, hvort nóg sé að gert, hvort fara hefði átt í flatar niðurfærslur o.s.frv. Ég held að algerlega óháð því sé bráðnauðsynlegt og skilvirkt að hafa vel útfært og öflugt vaxtabótakerfi, tekjutengt (Forseti hringir.) og/eða eignatengt að hluta eins og er í núverandi fyrirkomulagi, til að styðja sérstaklega við tekjulægri fjölskyldur.