140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Byggðastofnun.

302. mál
[12:28]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun, með síðari breytingum. Það er 32. mál þessa þings á þskj. 351 en með frumvarpinu er lagt til að ákvarðanir Byggðastofnunar sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim, sbr. 1. mgr., verði endanlegar á stjórnsýslustigi, þ.e. þær ákvarðanir verði ekki kæranlegar til ráðuneytisins líkt og nú er.

Eitt af meginhlutverkum Byggðastofnunar er veiting lána og ábyrgða samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum. Litið hefur verið svo á að ákvarðanir sem stofnunin tekur á grundvelli þessarar lagaheimildar um veitingu eða synjun lána eða ábyrgða séu stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og þar með kæranlegar til ráðherra samkvæmt almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga. Aðrar ákvarðanir Byggðastofnunar sem standa í tengslum við lán eða ábyrgðir sem veitt eru á grundvelli heimildar í 1. mgr. 11. gr., þ.e. ákvarðanir tengdar umsýslu þegar veittra lána og ábyrgða, hafa hins vegar almennt ekki verið taldar til stjórnvaldsákvarðana í þessum skilningi. Þær eru því almennt ekki kæranlegar til ráðherra að gildandi lögum, þótt umrædd umsýsla lúti almennu eftirliti ráðherra.

Ráðuneytið hefur haft til skoðunar hvort æskilegt sé að gera breytingar á lögum um Byggðastofnun sem miða að því að fella niður möguleika aðila til að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir stofnunarinnar sem lúta að veitingu lána og ábyrgða og umsýslu tengdri þeim. Í því skyni hefur verið horft til annarra stjórnvalda, svo sem Tækniþróunarsjóðs sem er undir yfirumsjón iðnaðarráðherra en ákvarðanir sem teknar eru þar, um að veita styrki úr Tækniþróunarsjóði, eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Þessu er háttað með mismunandi hætti í stjórnsýslunni en með flest það sem hefur með lánveitingar og styrki að gera hefur verið litið svo á að um endanlega ákvörðun sé að ræða og því eru slíkar ákvarðanir yfirleitt ekki kæranlegar til ráðherra.

Hjá Byggðastofnun hefur byggst upp yfirgripsmikil þekking á veitingu og umsýslu með lán og ábyrgðir og ríkar kröfur eru gerðar til stofnunarinnar um faglega málsmeðferð og úrlausn slíkra mála. Þá þurfa stjórnarmenn stofnunarinnar einnig að uppfylla hæfisskilyrði Fjármálaeftirlitsins til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækjum. Ákvarðanir Byggðastofnunar, sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim, skipta hundruðum á ársgrundvelli og telja má óheppilegt að allir þeir sem eru óánægðir með ákvarðanir stofnunarinnar um veitingu lána eða ábyrgða eða umsýslu tengda þeim, t.d. skilmálabreytingar, geti kært þær ákvarðanir til ráðherra.

Hvað varðar eftirlit með starfsemi Byggðastofnunar þá sinnir ráðuneytið almennu eftirliti sem lýtur að því hvort kerfisleg vandamál séu fyrir hendi, t.d. með könnun á verkferlum. Jafnframt bendi ég á að Byggðastofnun er lánafyrirtæki samkvæmt lögum sem lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með því að Byggðastofnun starfi í samræmi við lög og reglur eins og þær eru á hverjum tíma.

Með frumvarpi þessu er því lagt til að ákvarðanir Byggðastofnunar, sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim, verði endanlegar á stjórnsýslustigi. Enn fremur er, til að taka af allan vafa, lagt til að kveðið verði á um að hið sama eigi við um umsýslu viðkomandi lána og ábyrgða. Nái frumvarpið óbreytt fram að ganga verða umræddar ákvarðanir Byggðastofnunar ekki kæranlegar til iðnaðarráðuneytisins líkt og nú er. Hins vegar gilda ákvæði stjórnsýslulaga um kærur til æðra stjórnvalds eftir sem áður um allar aðrar stjórnvaldsákvarðanir Byggðastofnunar, frú forseti, allar aðrar en þær sem snúa beint að lánveitingum og lánaumsýslu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og til 2. umr.