140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Byggðastofnun.

302. mál
[12:44]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hugleiðingarnar og líka fyrir að fara aðeins yfir söguna. Saga þessarar stofnunar er ákaflega áhugaverð.

Ég þekki ekki til fortíðarinnar allt aftur til 1999 hvað varðar svona kærur. Hins vegar liggur núna ein fyrir í iðnaðarráðuneytinu sem snýr að endurskipulagningu fyrirtækis og það eru vísbendingar um aukningu fram undan.

Ég lít svo á að þó að þessi breyting færi í gegn tækjum við ekki við kærum sem snúa beint að ákvörðunum sem eru teknar á grundvelli vinnureglna stofnunarinnar um einstaka lánveitingar, skuldbreytingar eða umsýslu þessara lána. Engu að síður er áfram opin kæruleið ef menn telja með einhverjum hætti á sér brotið í málsmeðferðinni. Ég lít svo á að geri menn athugasemdir við málsmeðferðina sé það okkar að fara vandlega yfir hana, þ.e. skoða hvort einhvers staðar séu kerfislægar villur eins og ég sagði áðan eða kerfislægur vandi og síðan að fara vandlega í gegnum það hvort menn fara þá ekki örugglega að settum reglum.

Hins vegar tel ég einstakar ákvarðanir um lánveitingar eða umsýslu tengda þeim lánveitingum ekki eiga að vera á hendi iðnaðarráðuneytisins. Hjá Íbúðalánasjóði og Lánasjóði íslenskra námsmanna eru ákvarðanirnar endanlegar og þeim verður ekki skotið til ráðherra. Þær stofnanir eru reyndar með líka úrskurðarnefndir og málskotsnefndir innan sinna vébanda og það væri áhugavert að fara vandlega yfir það ferli. Í vetur verður farið vandlega yfir það hvort við ættum að gera slíkt hið sama fyrir Byggðastofnun.