140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[13:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 354 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins.

Í 1. gr. frumvarpsins er leitað heimildar fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 21,4 milljörðum kr. í 58,6 milljarða kr. eða úr 117,7 millj. SDR í 321,8 millj. SDR. Með hækkuninni mun hlutdeild Íslands í kvótum jafnframt hækka úr 0,055% í 0,067%.

Kvótahækkunin kemur í framhaldi af breytingum á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem samþykktar voru af yfirstjórn hans 28. apríl og 5. maí 2008 og á Alþingi með lögum nr. 5/2011. Hækkanirnar eru nauðsynlegar til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti rækt það hlutverk sem honum er ætlað af alþjóðasamfélaginu en mikilvægasti þátturinn í fjármögnun hans eru stofnframlög aðildarríkja.

Ísland hefur tvíþættan hag af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun. Í fyrsta lagi geta aðildarríki tekið hagstæð lán úr ýmsum lánaflokkum sjóðsins og miðast lánsfjárhæðir sem ríki eiga rétt á við tiltekið margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis sem er breytilegt frá einum lánaflokki til annars. Ísland hefur nokkrum sinnum tekið lán hjá sjóðnum, síðast árið 2008 í tengslum við þá efnahagsáætlun sem við hófum með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í árslok 2008 og lauk í ágúst sl. Í heild nam sú fjárhæð 1.400 millj. SDR. Í öðru lagi ræðst atkvæðavægi einstakra ríkja í stjórn sjóðsins af kvóta þeirra.

Gert er ráð fyrir því að aðildarlöndin hafi tíma til 31. desember 2011 til að samþykkja úthlutaðan nýjan kvóta, þótt framkvæmdastjórn sjóðsins geti framlengt þann frest. Með hækkuninni þarf að leggja sjóðnum til fjárhæð sem nemur um 37,2 milljörðum kr.

Í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins greiðast þrír fjórðu hlutar í íslenskum krónum og fjórðungur í SDR. Fjárhæðin hefur ekki bein áhrif á útgjöld eða skuldbindingar ríkissjóðs. Sá hluti kvótahækkunarinnar sem greiddur er í SDR og nemur rúmlega 9,3 milljörðum kr. er greiddur af Seðlabanka Íslands sem fer með fjárhagsleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir hönd ríkisins. Það framlag myndar gjaldeyrisinnstæðu hjá sjóðnum og telst áfram til gjaldeyrisforða Seðlabankans og því er um breytingu á samsetningu forðans að ræða. Hins vegar er sá hluti framlagsins sem er í íslenskum krónum og nemur tæplega 28 milljörðum kr. ekki greiddur úr ríkissjóði heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kröfu á innstæðu í Seðlabankanum sem nemur þeirri fjárhæð.

Í 2. gr. frumvarpsins er leitað heimildar fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins sem samþykkt var af sjóðsráði 15. desember 2010. Miða þær breytingar í helstu atriðum að því að allir fastafulltrúar í stjórn sjóðsins verði kosnir í stað þess að fimm af 20 fastafulltrúum séu skipaðir og að kjördæmi með sjö eða fleiri löndum fái heimild til að bæta við einum varafastafulltrúa og stefnt verði að því að fækka fastafulltrúum á vegum þróaðra Evrópuríkja um tvo með sameiningu kjördæma eða með skipulagsbreytingu innan kjördæma. Þetta er til marks um þá auknu áherslu sem er í starfi sjóðsins á að hann endurspegli breytta umgjörð heimsviðskiptanna og ríkari og vaxandi hlut nýmarkaðsríkja í heimsviðskiptaumhverfinu.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.