140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[13:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Hún gaf mér reyndar ekki mjög miklar upplýsingar, en mér er kunnugt um að allir fjármálagjörningar hafa í för með sér ákveðna áhættu sama hvaða nafni þeir nefnast og mér skilst að núna streymi allir forráðamenn Evrópusambandsins saman á einn fund til að taka ákvörðun einmitt um áhættur.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra í hverju áhættan af þessari aðgerð felist. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er að vasast í mörgu víða um heim. Skuldavandinn virðist vera orðinn mjög mikill og erfiður og í sumum löndum er jafnvel talað um að hann sé óleysanlegur eins og í Grikklandi og það er jafnvel talað um Ítalíu í því samhengi, sem ég vona nú ekki, en spurningin er sú: Hvaða áhættu er Ísland að taka með þessu? Þetta eru umtalsverðar upphæðir. Ég sá reyndar ekki alveg út úr greinargerðinni hvort þessir 58,3 milljarðar, sem þetta er, sé aukningin eða endanlega niðurstaðan en ráðherra getur væntanlega upplýst mig um það. En þó að þetta verði endanleg niðurstaða er um að ræða 30 milljarða hækkun sem eru miklir peningar svo ég bendi á það. Hallinn á ríkissjóði var 20 milljarðar í fjárlögunum sem við afgreiddum í gær og ef þetta bættist við af einhverjum ástæðum vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn réði ekki við skuldbindingarnar um allan heim þyrfti að borga þetta út.

Ég spyr bara nákvæmlega eins og þýskur þingmaður spurði þegar menn voru að tala um ábyrgð Þýskalands: Ef ekki stendur til að borga þetta út í neyðartilfelli af hverju er þá verið að þessu?