140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[13:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ansi bitra reynslu af ströngum varúðarreglum. Þær áttu að vera í gildi hérna, það voru sett test á bankana. Það er verið að setja test á banka í Evrópu o.s.frv. og svo bregst það samt. Ársreikningar eru ekki rétt færðir og sýna gífurlegt eigið fé, matsfyrirtækin meta út og suður, að manni sýnist. Allt á þetta að vera mjög öruggt og tryggt og svo kemur að því að hlutirnir fara að gefa sig. Umræðan til dæmis um stöðu Grikklands og Ítalíu, aðallega Grikklands, er sú að þar er jafnvel talað um að ríkisbókhaldið hafi verið fegrað, ég vil ekki segja orðið falsað, og lífeyrisskuldbindingar ekki færðar o.s.frv. Allt þetta tengist þessum ströngu varúðarreglum af því að menn treysta á að kerfin gangi. Fyrir mér er þetta alltaf spurning um það að við erum að taka á okkur skuldbindingu.

Ég er ekki að mæla gegn þessu frumvarpi en ég vildi gjarnan að menn áttuðu sig á því að við erum að tala um skuldbindingu og hún er ekki lítil, þetta eru mjög stórar upphæðir og salurinn er tómur eins og við sjáum, herra forseti. Það er því ekki mikill áhugi á þessum skuldbindingum sem við erum að taka á okkur og það má vel vera að gullforðinn og strangar varúðarreglur og allt þetta geri það að verkum að þetta sé nánast áhættulaust, en þá spyr ég eins og þýski þingmaðurinn: Af hverju eru þær gerðar? Það er nefnilega þannig að á bak við þetta allt saman er ábyrgð. Við borgum þá ábyrgð ef illa fer.