140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir flest ef ekki öll þau markmið sem hæstv. ráðherra lagði upp með við breytingu á þessum lögum. Það er hins vegar þannig að við höfum breytt þessum lögum ótt og títt á undanförnum missirum og almenna reglan er alltaf sú að frumvarpið kemur seint og illa inn í þingið og á að klárast mjög hratt. Niðurstaðan er alltaf sú að gera þarf aftur einhverjar leiðréttingar, eins og mér skilst að meiningin sé að gera núna.

Við vorum að fá þetta frumvarp til þingsins, hæstv. ráðherra er að mæla fyrir þessu núna og þó að það sé ekki almenn regla fengum við kynningu á málinu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd áður en hæstv. ráðherra talaði fyrir því. Ég bað um að það yrði sent til umsagnar. Ég vil heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki mikilvægt að við vöndum okkur mjög vel og förum yfir þetta. Þó að þetta hljómi sem lítil breyting vitum við að við höfum þurft að hlaupa til hvað eftir annað til að breyta einhverju vegna þess að við vinnum málin of hratt. Hæstv. ráðherra er að mæla fyrir frumvarpinu núna á fimmtudegi og þinglokin eiga að vera næsta föstudag. Fjalla á um málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en hún er stútfull af verkefnum og á meðal annars að fjalla um hvernig við eigum að fjármagna ríkissjóð á næsta ári en bara er búið að ákveða útgjöldin en ekki skattana.

Spurning mín er einfaldlega þessi: Er ekki ætlunin að þetta mál fái vandaða umfjöllun í þinginu?