140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er að sjálfsögðu vilji minn að málið fái vandaða umfjöllun í þinginu. Hversu löng hún þarf að vera er á forræði nefndarinnar að meta. Málið liggur mjög ljóst fyrir og ég held að ef nefndin sér ekki á því augljósa meinbugi væri mikilvægt að það gengi hratt fram og helst að við gætum samþykkt það fyrir jólahlé þó að ekki sé mikið eftir af þingtímanum. Ástæðan er einfaldlega sú að ég held að það væru mjög góð skilaboð til hlutabréfamarkaðarins og almennings, einmitt nú þegar við vitum að fyrsta skráningin er að fara af stað, að það séu engir óvissuþættir um reglur um yfirtökuskyldu og að stórir eigendur fyrirtækja sem verið er að skrá á markað eigi ekki einhvers konar hjáleiðir sem almenningi eru ekki að fullur ljósar, til að viðhalda ráðandi hlut sínum eða stækka hann. Við erum auðvitað að vonast til að almenningur vilji taka þátt í hlutabréfamarkaðnum og byggja hann upp með okkur.

Ég held að það væru góð skilaboð frá Alþingi að gera þessa einföldu breytingu því hún liggur mjög ljós fyrir. Hún er augljóslega í þágu almennings og þeirra aðila sem hafa minni sérþekkingu og vilja taka þátt í hlutabréfamarkaðnum. Ég held að það væru góð skilaboð. En auðvitað er það háð því að nefndin sjái enga annmarka á málinu. Það er nefndarinnar að meta hvað hún treystir sér til að gera.