140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hér sé engin óvissa og aðilar hafi ekki möguleika á að taka yfir fyrirtæki með einhverri hjáleið, ég er hjartanlega sammála því. En ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp og spyr um viðhorf hæstv. ráðherra, er einfaldlega sú að málin hafa svo oft, og sérstaklega núna á þessu kjörtímabili, verið lögð upp með þessum hætti. Þetta er einfalt og fljótklárað og það verður að klára þetta. Að vísu talaði hæstv. ráðherra ekki þannig núna, ég er alls ekki að segja það, þvert á móti. Ég er ánægður með upplegg hæstv. ráðherra. En síðan kemur á daginn að vegna þess að menn vinna þetta svo hratt koma einhverjir annmarkar í ljós sem menn sáu ekki fyrir. Það veldur jafnvel skaða og er í það minnsta ekki þau skilaboð sem við viljum gefa.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að byggja upp hlutabréfamarkaðinn aftur, gríðarlega mikilvægt að almenningur geti tekið þátt í honum, sjái ástæðu til þess og sjái sér hag í að taka þátt í honum. Ég held hins vegar að við eigum eftir að fara þar yfir ansi mörg mál. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur meðal annars talað um skort á því sem hann kallar gagnsæ hlutafélög og er ég meðflutningsmaður á frumvarpi hans þess efnis. Það er einn þátturinn en þeir eru margir aðrir og ég held að mikilvægt væri að hv. efnahags- og viðskiptanefnd tæki þetta mál upp í heild sinni. Ef þessi breyting er til bóta og einfalt að gera hana þá á auðvitað bara að klára málið, ég er ekki að segja annað, virðulegi forseti. En vítin eru til að varast þau. Ég ætla ekki að nefna þau fjölmörgu dæmi þar sem maður hefur upplifað að við höfum flýtt okkur (Forseti hringir.) of mikið og það leitt til galla í lagasetningu.