140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:08]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ég fagna þessum orðum hv. þingmanns og tel rétt að nefndin meti það hvort hún treystir sér til að gera þessa breytingu.

Við höfum auðvitað oft komið inn með frumvörp á undanförnum missirum þar sem við höfum verið að bregðast við aðstæðum. Kannski, í einhverjum tilvikum, hafa menn flýtt sér um of. Oftar er það þó vegna þess að við erum að fást við ófyrirséð atvik. Þá er ekki óeðlilegt að við breytum löggjöfinni. Núna er það til dæmis þannig að með hertum yfirtökureglum vilja menn líka vera alveg vissir um að eftir þeim verði farið því við höfum bitra reynslu af því hvernig horft var fram hjá augljósri sniðgöngu á yfirtökureglum fyrir hrun. Í þeirri grandskoðun hefur þetta mál komið upp og þess vegna auðveldara í sjálfu sér að ráðast í það sérstaklega án frekari breytinga á lögunum að öðru leyti.