140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um vinnuhraðann. Það er varla hægt að vinna málið á þeim stutta tíma sem eftir er af þingi, rúmri viku, ef það á að klárast fyrir jól. Áðan var ekki hægt að hafa atkvæðagreiðslu vegna þess að þingmenn voru bara ekki við. Þetta er ekki nógu sniðugt.

En mig langar að spyrja um eitt. Þetta er mjög gott frumvarp þannig séð og tekur á ákveðnum vanda en hér er endalaust verið að bæta flíkina. Þetta minnir mig á sokkabuxur þar sem verið er að bæta flíkina upp við bolinn en búið er að klippa neðan af sokkabuxunum. (Gripið fram í: Það er ekki gott.) Það er ekki gott, nei. (Gripið fram í.) Hvað gerist ef einhver aðili á undir þessum mörkum í fyrirtæki og svo kaupir allt í einu hlutafélag frá Lúxemborg eða Tortóla, sem er enn þá betra, í þessu fyrirtæki? Það vill svo til að þessi náungi sem ætlaði að auka hlut sinn fer í gegnum Lúxemborg eða Tortóla til að auka hlutinn og ekki nokkur einasti maður veit af því. Hvað gerist þá? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að leysa það?

Það er nefnilega þannig að menn líta ekki á alla keðjuna. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis birtist mjög skrautleg mynd sem sýnir okkur hvað menn er óskaplega uppfinningasamir. Það er tær snilld út um allt þar sem menn búa til hlutafélög á hlutafélög ofan og mynda keðjur og net af hlutafélögum. Það er enginn vandi að fara fram hjá þessu. Það er búið að klippa neðan af sokkabuxunum, minn kæri.