140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

verðbréfaviðskipti.

369. mál
[14:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nefnilega málið. Hér er ekki verið að laga nema fyrstu kynslóð eigenda, ekki þegar komnar eru margar kynslóðir. Ég benti á lausn á þessu sem felst í gegnsæjum hlutafélögum þar sem upplýst væri um alla eigendakeðjuna þannig að ekki geti myndast hringstraumur af peningum og ekki sé hægt að sniðganga lög um yfirtökuskyldu. Sá sem á yfir 39% beint og eignast svo 10% til viðbótar óbeint, er náttúrlega ekki svo vitlaus að mæta á aðalfund með alls 49% umboð frá þessu fyrirtæki í Lúxemborg, nei, einhver lögfræðingur mætir og situr við hliðina á honum og gerir nákvæmlega það sama og hann. Þannig yrði það að sjálfsögðu gert.

Vandamálið er að hér voru langar keðjur myndaðar sem gerðu að verkum að peningar gátu farið í hring og gerðu það. Ég fullyrði meira að segja að það var hluti af ástæðunni fyrir hruninu hversu mikið fé myndaðist sem ekki var til. Ég hef enda nefnt það áður í þessum ræðustól hvernig eigið fé íslenskra fyrirtækja hrundi, það bara hvarf við hrunið, það var ekki til.

Ég held að hæstv. viðskiptaráðherra þurfi að taka sér tak og hugleiða þessi mál miklu nánar. Í dag lýkur sölu á Högum til almennings. Hver er ábyrgur ef svona keðja kemur aftur upp? Það er enginn sem bannar einhverju fyrirtæki í Lúxemborg að kaupa í Högum og láta peningana fara í hring, enginn og ekkert bannar það. Þannig að menn geta farið að leika þann leik aftur að láta peningana fara í hring með nákvæmlega sama hætti og fyrir hrun. Þá myndast aftur heilmikil keðja af peningum sem ekki eru til.