140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af stjórnarlaununum, ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt og eðlilegt að greiða mönnum fyrir að sinna hlutverkum sem þessum. Ég held hins vegar að það skipti máli að samræmi sé og er að leita eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort samræmi sé þarna á milli og hjá öðrum sambærilegum stofnunum. Hæstv. ráðherra segir að hér sé í rauninni ekki aðeins um stjórn að ræða heldur úrskurðarnefnd. Ég held að ekki væri úr vegi að skoða og líta á vel þetta því að miðað við það sem maður mundi ætla að væri í gangi hjá öðrum opinberum stofnunum sem eru með stjórnir, þá er þetta ekki í samræmi við það sem við sjáum annars staðar, 600 þús. fyrir stjórnarformann á mánuði, 200 þús. fyrir aðalmann og 200 þús. fyrir varamann.

Ég spurði hæstv. ráðherra af því að nú liggur það alveg fyrir að fjármálafyrirtæki í umsjón og vörslu hæstv. fjármálaráðherra brutu 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem er afskaplega mikilvæg grein. Hún gengur út á það að viðkomandi aðilar eða fyrirtæki þurfa að uppfylla lögbundnar eiginfjárkröfur hvorki meira né minna. Þetta er grundvallarregla. Þetta er gert auðvitað til að vernda almenning og að hægt sé að treysta því að viðkomandi stofnanir séu fjárhagslega sterkar. Á sama tíma og þau voru að brjóta þessa lögbundnu eiginfjárkröfu voru fyrirtækin, eða alla vega annað þeirra, að opna útibú, var með mikil umsvif og var að keppast um innlán í samkeppni við aðra. Það er ljóst að FME aðhafðist ekkert í því. Nú þýðir ekkert að halda því fram að fjárskortur hafi verið eða að það hafi ekki vitað af þessu vegna þess að þau fyrirtæki voru í gjörgæslu.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum málum, hvort þetta geti ekki skapað skelfileg fordæmi.