140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög vandumrætt mál vegna þess að ef maður leyfir sér að gagnrýna þessi auknu fjárútlán til Fjármálaeftirlitsins þá er maður bara kominn í hóp þeirra sem vilja ekkert eftirlit og allt að því orðnir sekir menn. (Gripið fram í.) Þetta er því dálítið vandmeðfarið.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega þannig að þetta sé nánast sjálftaka, að Fjármálaeftirlitið geti sett fram einhverja tölu, einhverja skýrslu um að þetta þurfi og hitt þurfi, og svo bara gerist það. Mér sýnist að þannig hafi verið komið fram í efnahags- og viðskiptanefnd, sem ég sit reyndar ekki í, en mér skildist það á umræðunni að menn hefðu bara tilkynnt að þannig ætti þetta að vera.

Svo langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um lífeyrissjóðina. Ég hef alltaf dálitlar áhyggjur af lífeyrissjóðunum vegna þess hvernig þeir eru uppbyggðir. Til dæmis er einn lífeyrissjóður sem heitir B-deild LSR. Þar á eftir að borga 400 milljarða inn. Hvernig er tekið á því þegar lagt er 0,01174% af hreinni eign til greiðslu lífeyris? Er það af 400 milljörðunum eða er það af eignum sem eru til staðar? Hvað gerist með þessar álögur á lífeyrissjóðina þegar A-deildin á að hækka iðgjaldið samkvæmt lögum, stjórnin á að gera það, og þar með auka útgjöld ríkissjóðs, sem ekki var reyndar gert í fjárlagafrumvarpinu sem við samþykktum í gær. Það vantaði 4 milljarða þar inn. Í rauninni borga lífeyrissjóðirnir þetta ekki neitt, það er ríkissjóður sem borgar það, það eru skattgreiðendur, það eru hinir lífeyrissjóðirnir, það eru sjóðfélagar hinna lífeyrissjóðanna sem borga þetta. Hvernig lítur hæstv. ráðherra á það?