140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

370. mál
[14:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að ítreka spurningu mína um lífeyrissjóðina, sérstaklega almennu lífeyrissjóðina. Fyrst lögin eru svona ósveigjanleg og fyrst hæstv. ráðherra er kominn í þessa stöðu þá spyr maður sig: Af hverju er hann ekki búinn að breyta þessu eða leggja fram frumvarp um að breyta lögunum og sannfæra Alþingi um að þessu þurfi að breyta?

Ég man þá tíð þegar Fjármálaeftirlitið var nýbyrjað með 30–40 starfsmenn þá lagði ég til úr þessum ræðustól aftur og aftur að meiri peningar yrðu settir í það vegna þess að fjármálamarkaðurinn óx mjög hratt en Fjármálaeftirlitið var alltaf á eftir og hefði þurft að vaxa miklu hraðar. Það voru virkilega raddir hérna um að auka þyrfti eftirlitið fyrir hrun, hefði kannski betur verið gert. En þá var þessi regla of stíf þar sem Fjármálaeftirlitið lagði fram tillögur og síðan varð ráðuneytið að samþykkja það og leggja fyrir Alþingi.

Ég legg því til að þessu verði breytt vegna þess að við erum núna að auka eftirlitið í stórum stíl, í miklum mæli, með minnkandi fjármálamarkað. Hann minnkar mjög hratt. Ég man ekki hvað starfsmönnum hefur fækkað mikið í bönkum, sparisjóðum og fjármálastofnunum en mér skilst að það séu um 2 þús. manns, herra forseti, sem hafa horfið úr starfi við starfsemi sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað að hafa eftirlit með, fyrir utan það að öll utanlandsviðskipti voru mjög dýr í eftirliti, ég nefni Icesave í því sambandi og sitthvað fleira sem gerðist þar, ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Ég spyr hæstv. ráðherra um lífeyrissjóðina og hvort þurfi ekki að breyta þessum lögum þannig að ráðuneytið og Alþingi geti komið sterkar að þessu og hvort ekki sé eðlilegt að minnka umsvifin þegar það sem verið er að hafa eftirlit með minnkar. Væntanlega er búið að taka á verstu málunum og vísa þeim til sérstaks saksóknara.