140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:30]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta fagna ég mjög því frumvarpi sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggur fram um svæðisbundna flutningsjöfnun. Ég og fleiri þingmenn höfum rætt þetta mál mjög lengi og kallað eftir því til að jafna aðstöðu framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart því sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Allir ættu að sitja við sama borð og geta haldið úti starfsemi óháð því hvar stærsti markaðurinn er, búið við svipuð rekstrarskilyrði og nýtt sér staðsetninguna úti á landi, ef svo má að orði komast, til að vera þar hugsanlega í ódýrara húsnæði. Aðrir þættir geta líka verið dýrari en það sem skekkt hefur þessa samkeppni hvað mest er einmitt hár flutningskostnaður. Um það hefur mikið verið rætt á hinu háa Alþingi og skrifað inn í margar byggðaáætlanir eins og vitnað er í hér en loksins er þetta að komast í höfn. Því ber að fagna og ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir frumvarpið sem hér er komið fram og vona jafnframt að hv. efnahags- og viðskiptanefndar vinni málið fljótt og vel ef það fer til hennar.

Hér er talað um tveggja ára tilraun, sem er ágætt og gott, og að menn læri af þeirri reynslu. Það sem kannski er mest um vert er að í fjárlögum fyrir næsta ár, árið 2012, er gert ráð fyrir 200 millj. kr. í þessa flutningsjöfnun sem er ágætisbyrjunarfé.

Virðulegi forseti. Þá rifjast það upp fyrir mér sem gerðist fljótlega eftir myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar árið 2007. Þá voru uppi álíka áform. Þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, og sá sem hér stendur, sem þá gegndi embætti samgönguráðherra, ræddu þetta mál og ég hygg að fleiri hafi tekið þátt í þeirri umræðu, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Síðan misstum við þá upphæð út þegar þurfti að skera niður við fjárlagagerð eftir banka- og efnahagshrunið. Mig minnir að talan hafi verið svipuð.

Flutningsjöfnun er ákaflega mikilvæg og við vorum með hana á sementi fyrir ansi mörgum árum. Ef til vill illu heilli var sú flutningsjöfnun lögð niður en enn höfum við flutningsjöfnun á olíu. Þess vegna spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og bið hann að svara því hér á eftir, hvort flutningsjöfnunarsjóður olíu eigi að vera óbreyttur eða á hann með tíð og tíma að falla inn í það flutningsjöfnunarkerfi sem hér er verið að setja upp. Kannski verður bara eitt kerfi utan um þetta.

Við skulum hafa í huga, virðulegi forseti, að ofan á flutningskostnað leggst virðisaukaskattur að lokum og það segir sig sjálft að kosti 10 þús. kr. að flytja hlut frá Reykjavík til Siglufjarðar eru um 2 þús. kr. af þeirri upphæð greiddar sem virðisaukaskattur til ríkissjóðs. Auðvitað fá lögaðilar það sem útskatt á móti innskatti en hvað varðar almenning í landinu er þetta geysilega há skattlagning og aukaskattur. Í þessari flutningsjöfnun er verið að tala um framleiðsluiðnað og vitnað í Noreg og Svíþjóð enda hygg ég að ágætt sé að taka þau lönd sem dæmi. Þeim hefur lengi verið stjórnað af jafnaðarmönnum og eðlilegt að þau séu þá búin að koma upp jafnaðarmannaflutningskerfi eins og hér er fyrirmynd að.

Eins og ég sagði áðan hefur oft verið fjallað um þetta á Alþingi, mikið talað en aldrei hefur þetta komist til framkvæmda fyrr en þá núna. Meðal annars er vitnað í byggðaáætlun sem samþykkt var í fyrra, var unnin í þeirri iðnaðarnefnd sem ég stýrði á síðasta ári og samþykkt hér með öllum greiddum atkvæðum. Ég hygg að hluti af því að ná allsherjarsátt um málið sé að í nefndinni var meðal annars skrifuð inn með mjög skýrum orðum nauðsyn á jöfnun lífskjara og tekið dæmi af flutningsjöfnun og svo aftur húshitunarkostnaði og rafmagnsverði. Ég fagna því að þetta skuli vera sett inn á þennan hátt.

Virðulegi forseti. Ég verð að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, og bið hann að svara því á eftir í sinni síðustu ræðu: Af hverju eru styrksvæðin sett upp í 4. gr. eins og þar er gert? Ég geri mér alveg grein fyrir því að sveitarfélögin á Vestfjarðakjálkanum eru öll talin upp í 4. gr. og þau tilheyra svæði 2 sem fær þá allt að 20% flutningsjöfnun. Þar er byggð sem á í erfiðleikum en við teljum hluta byggðarinnar, norðanverða Vestfirði, kominn með mjög gott vegasamband með varanlegu slitlagi alla leið, um 400 kílómetra ef ég man rétt. Austur á land, t.d. Reykjavík – Egilsstaðir, eru tæpir 700 kílómetrar. Það er miklu lengra að keyra til Neskaupstaðar, Vopnafjarðar, Raufarhafnar og á þær slóðir allar og því er spurning mín til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra: Af hverju eru sveitarfélögin talin upp svona? Af hverju eru sveitarfélögin sem eru lengst í burtu, eins og ég var að nefna, á norðausturhorninu, ekki líka talin á svæði 2? Alveg eins getum við sagt að það sé eðlilegt að á svæði 1 séu Stykkishólmur, Hvammstangi, Sauðárkrókur, Selfoss og Hvolsvöllur ef maður telur í kílómetrum út frá Reykjavík. Ég vonast til að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fræði okkur um þetta á eftir og segi okkur hvers vegna þetta er.

Á þeim fáu mínútum sem ég á eftir ætla ég að taka annað dæmi sem ég gat um áðan og var skrifað inn í byggðaáætlun um jöfnun lífskjara. Það var annað aðalatriðið sem við settum þar inn og hið háa Alþingi hefur samþykkt. Hér reynir á flutningsjöfnun. Húshitun og raforkukostnaður í dreifbýli úti á landi þar sem húshitunarkostnaður er hár er mjög mikið niðurgreitt. Ég gæti trúað að í kringum 1 milljarður væri notaður í niðurgreiðslur. Það eru háar upphæðir en samt sem áður getum við fundið nokkur svæði þar sem það kostar líklega um 80% meira að hita húsnæði en það kostar á höfuðborgarsvæðinu. Ég nefni þetta vegna þess að ég held að eitt aðalbyggðamálið sé þetta, húshitunin, og að finna betri leið til að jafna kostnaðinn. Ég get tekið dæmi af garðyrkjubændum sem hefur komið fram á fundum með atvinnuveganefnd. Í tilteknum byggðakjarna búa 160–170 manns. Ef fólksfjöldinn í þeim byggðakjarna færi upp fyrir 200 manns mundi raforkukostnaður þar lækka við það eitt. Þetta segi ég, virðulegi forseti, vegna þess að ég held að við þurfum að skilgreina upp á nýtt hvað telst dreifbýli og hvar við eigum að jafna. Þess vegna hefur það verið rætt í atvinnuveganefnd, sem ég er formaður fyrir, að fá sem fyrst tillögur frá starfshópi um svokölluð köld svæði sem vinnur að tillögum um hvernig betur megi ganga fram í jöfnun húshitunarkostnaðar hér á landi. Eftir áramót verður gengið eftir tillögunum og vonandi tekst á þessu þingi að stíga betri skref í þessum málum.

Virðulegi forseti. Ég fagna fyrst og fremst þeirri tillögu sem hér er komin fram og þó að stutt sé eftir af starfstíma þessa þings fram að jólum hvet ég efnahags- og viðskiptanefnd til að vinna þetta hratt þannig að takast megi að klára málið fyrir jól. Eins og ég hef getið um eru 200 millj. kr. settar inn í þessa flutningsjöfnun og í gildistökugrein er talað um 1. janúar 2012 og að lögin falli úr gildi 31. desember 2013, nema við framlengjum lögin eða endurbætum þau eftir reynsluna. Ég hvet til þess, virðulegi forseti, að nefndin taki þetta fljótt og vel til umræðu og vinnu þannig að strax á nýju ári getum við hafið þessa flutningsjöfnun þó að kannski eigi eftir að vinna eitthvað meira úr tillögunum.

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að nefna um þessa flutningsjöfnun sem varðar helst flutning á vegum þá skoðun mína að við eigum að taka upp strandsiglingar við Ísland. Þá yrði samkeppni milli landflutninga og sjóflutninga. Ég geri mér grein fyrir því að sum nauðsynjavara verður aldrei flutt með skipum en margar vörur sem eru fluttar núna á þjóðvegum landsins er hægt að fara með í strandsiglingar. Nefnd sem ég skipaði sem samgönguráðherra skilaði ákaflega góðum tillögum og ég hvet til þess að áfram verði unnið af fullum krafti að því að koma á strandsiglingum en það gæti þurft að styrkja þær eitthvað, svipað og við erum að gera hér. Þeir peningar kæmu af sparnaði við minna slit á þjóðvegum landsins.

Ég hef lagt fram tvær spurningar til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem ég vonast til að hann svari á eftir en fyrst og fremst fagna ég því að þetta frumvarp er komið fram.