140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Þetta er gagnmerkt mál og réttlætismál gagnvart því fólki sem býr um hinar dreifðu byggðir landsins.

Ég vil líka taka undir með þingmanninum að eins og gengur og gerist kemur útfærslan á þessu manni stundum spánskt fyrir sjónir. Því langar mig til að spyrja þingmanninn hvernig honum lítist á þá hugmynd að endurgreiðslurnar fari stighækkandi eftir kílómetrafjölda frá t.d. Reykjavík. Við vitum að hér er miðjan og héðan og hingað fara mestu flutningarnir. Þá er hugmyndin sú að því lengra sem maður býr frá Reykjavík því hærri séu niðurgreiðslurnar að prósentutölu. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir 10% niðurgreiðslum fyrir allt landið nema Vestfirði. Þegar maður er kominn yfir 350 km frá Reykjavík breytist niðurgreiðslan í 20%. Þá spyr maður sig óneitanlega hvernig stöðum eins og Þórshöfn, Bakkafirði, Vopnafirði, Raufarhöfn og fleiri stöðum sem eru langlengst frá Reykjavík reiði af í þessi tilviki.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í þá hugmynd að hafa þetta eftir kílómetrafjölda í staðinn fyrir svona gjaldskyld svæði eins og fyrirmynd er að (Forseti hringir.) annars staðar á Norðurlöndunum.