140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þeim spurningum sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur lagt fram tók ég það fram í ræðu minni að það eru rúmir 700 kílómetrar frá Reykjavík og austur á Neskaupstað, ef ég man rétt.

Ég bíð eftir svari hæstv. ráðherra við því af hverju þau sveitarfélög eru eingöngu talin upp sem teljast til svæðis 2 og geta notið 20% flutningsjöfnunar eftir að komið er upp fyrir 391 km en ekki önnur svæði, eins og á norðausturhorninu, þangað sem mjög langt er að keyra. Af hverju að þau eru ekki þarna inni?

Varðandi það sem hv. þingmaður talaði um, hvernig mér litist á að endurgreiðslurnar væru stighækkandi, litist mér auðvitað vel á það ef kerfið væri bara gegnsætt og dugði eins fyrir alla, alveg sama hvort það eru 440 km til Bolungarvíkur eða 440 km á Djúpavog ættu þessir flutningsstyrkir vegna framleiðsluvara að vera veittir í sama formi.

Ég vil trúa því að efnahags- og viðskiptanefnd fari vel yfir þetta mál. Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður situr í þeirri nefnd og þá fylgi ég eftir hvatningu minni til hans og annarra nefndarmanna að bretta upp ermar og klára þetta fyrir jól vegna þess að ég held að við eigum að gera það. Hér er reglugerðarákvæði handa ráðherra til að setja um þetta, sem að sjálfsögðu er rétt að hafa, ég tala nú ekki um þegar við erum að stíga svona fyrstu skref, og ég geri mér grein fyrir því að í þeim reglugerðum gæti þurft að breyta til þegar reynsla verður komin á. Aðalatriðið er að byrja og síðan finnum við út hvernig best er að gera þetta að hætti jafnaðarmanna með jafnaðarmennsku að leiðarljósi eins og við eigum alltaf að hafa á hinu háa Alþingi.