140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[15:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekkert að fara að ræða við hv. þm. Kristján Möller um hvort þetta sé sósíaldemókratískt mál eða hvort það megi eigna það einhverri sérstakri stjórnmálastefnu.

Það er annað sem kom fram í ræðu hv. þingmanns og það eru hugmyndir um sjóflutninga. Ég skil það á þann veg að sjóflutningar hafi lagst af hérna af því að einkaaðilar hafi ekki séð sér lengur fært að vera með sjóflutninga vegna þess að það hafi einfaldlega ekki borgað sig. Við vitum að mestu flutningarnir eru með fisk fram og aftur um vegakerfið og með sjóflutningum væri náttúrlega ekki hægt að halda hráefninu fersku. Í tengslum við landbúnað er það einkum búfé sem keyrt er fram og til baka líka og hæpið að setja það um borð í skip. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig hægt væri að koma hérna á sjóflutningum. Ætti t.d. að stofna aftur Skipaútgerð ríkisins? Það væri óneitanlega sósíaldemókratísk aðgerð. Eða sér hann fyrir sér að einkaaðilar sjái um þetta fyrir einhvers konar ríkisstyrk?