140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Agi í fjármálastjórn er ein af frumforsendum stöðugs efnahagslífs. Því miður er hugtakið okkur ekki mjög tamt hér á landi og reyndar á það sama við í fleiri löndum, en eins og við vitum stafar það voveiflega ástand sem ríkir í efnahagsmálum í Evrópu og reyndar líka í Bandaríkjunum einmitt af því að þar hefur ekki verið haldið uppi aga í fjármálastjórn. Það þarf ekki bara aga í fjármálastjórn þar sem er lítill gjaldmiðill heldur líka þar sem er stór gjaldmiðill.

Agaleysi af þeirri sort átti að mínu mati einnig mikinn þátt í efnahagshruninu sem varð hér á landi og ég vil taka það skýrt fram að ég undanskil þá ekki hlut þeirrar ríkisstjórnar sem minn flokkur átti aðild að á vordögum 2007 í þeim efnum.

Agi í fjármálastjórn á ekki bara að vera á einum stað sem hægt er að benda á hvað betur mætti fara heldur þarf hann að vera í allri meðferð opinberra fjármála. Kannski er rétt að skjóta því inn að ekki má undanskilja fjármál sveitarstjórna í þessu efni þó að ég muni halda mig við fjármál ríkisins í þessari tölu. Aginn þarf að vera á öllum stigum og öllum sviðum, hann þarf að vera í þinginu. Nú störfum við samkvæmt nýjum þingskapalögum þar sem kveðið er á um að fyrir 1. apríl ár hvert skuli fjármálaráðherra leggja fram meginskiptingu útgjalda fyrir Alþingi. Í mínum huga var það tímamótaákvörðun en við verðum að hafa í huga að það gerir ekki einungis kröfu til framkvæmdarvaldsins eða fjármálaráðherra heldur einnig til þingsins. Ef þingmenn samþykkja þennan ramma verða þeir að vera tilbúnir að vinna innan hans þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram á haustþingi.

Ég vil líka nefna að þeir sem gerst þekkja til segja að nú haldi stofnanir ríkisins sig betur innan fjárlaga en þær hafi áður gert og má í því efni segja að fátt sé svo illt að ekki boði nokkuð gott, (Forseti hringir.) en það fylgdi falli efnahagslífsins og áskorunin er sú að menn gæti sín einnig framvegis, einnig þegar efnahagsástandið hér batnar.