140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvægt málefni sem við ræðum hér og nú enda sjáum við ef við lítum yfir stöðu heimsmálanna að heimskreppuvandinn tengist ekki evrunni sem slíkri heldur miklu fremur stjórnmálamönnum sem gátu ekki beitt sig eða ríkisfjármálin neinum aga. Við sjáum það ef við lítum til Bandaríkjanna, Grikklands, Ítalíu og fleiri landa.

Hér koma menn og ræða mikilvægi þess að beita aga í ríkisfjármálum en hins vegar hafa stjórnarliðar horft upp á hugmyndir stjórnarandstæðinga að undanförnu um stefnu í efnahagsmálum sem bera ekki vott um mikinn aga. Þar hafa menn lagt fram ýmsar hugmyndir um útgjöld í vinsælum málaflokkum en telja svo að tekjurnar komi af aukinni veltu vegna þess að með því að lækka skatta muni veltan aukast svo mikið að tekjurnar verði nægar. Menn eru að mínu viti tilbúnir til þess að fara aftur í sömu vitleysuna og var hér á árunum fyrir hrun að treysta alfarið á veltuskattana í tekjunum, þeir eru tilbúnir að eyða fé og þenja út ríkisbáknið en forsendur teknanna eru á völtum grunni. Það er slæm reynsla af því og þess vegna er mikilvægt að við látum ekki glepjast af slíkum loforðum.

Menn hafa örlítið rætt um mikilvægi þess að hafa aga í fjármálum til að geta haldið í krónuna, en þeir mega ekki gleyma því að (Gripið fram í.) gengið hefur mikil áhrif á stöðugleika eða óstöðugleika fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Við losnum ekki við áhrif gengisins á verðbólguna þrátt fyrir að við sýnum aga í ríkisfjármálum. Sveiflur í gengi hafa mikil áhrif á velferð heimila og fyrirtækjanna í þessu landi og menn þurfa alltaf að svara þeirri spurningu: Horfa menn á krónu á markaði þar sem hún sveiflast eða ætla menn áfram að búa við krónu í höftum? Agi er mikilvægur en ávinningur af upptöku nýs gjaldmiðils er áfram til staðar.