140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég eins og aðrir fagna því að loksins er komið fram frumvarp sem hefur það í för með sér að flutningskostnaður verði jafnaður á milli landshluta. Við búum einfaldlega þannig við Íslendingar að miðja hagkerfisins er í Reykjavík (PHB: Sem ekki er miðjan.) sem ekki er miðja landsins eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir svo réttilega á. Þetta er í rauninni hluti af þeim vanda sem snýr að þeim framleiðslufyrirtækjum á landsbyggðinni sem þurfa að leggja út í töluvert mikinn flutningskostnað. Ég hef heyrt í forsvarsmönnum framleiðslufyrirtækja á Akureyri sem hafa reiknað dæmið þannig að það geti verið hagstæðara að flytja starfsemina hingað á höfuðborgarsvæðið, selja byggingar fyrir norðan og spara þannig mikla fjármuni á nokkrum árum. En þannig viljum við ekki sjá landið okkar.

Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins nú fyrir skömmu var ákveðið að leggja af stað í gerð skýrslu um byggðalýðræði sem felst í því að við ætlum að jafna samkeppnisstöðu þannig að ekki eigi að skipta máli fyrir fyrirtæki hvar þau eru staðsett á landinu. Það lýtur ekki bara að flutningsjöfnuði heldur að ótal öðrum þáttum eins og samgöngubótum, internet- og farsímakerfi. Það hefur ekki verið gerð svona skýrsla lengi og ég var fenginn til þess að stýra nefndinni sem mun skila af sér tillögum á næsta flokksþingi Framsóknarflokksins.

Ég hef líka lagt fram tillögu um að ríkisstjórnin láti gera sambærilega skýrslu fyrir allt landið til að minnka þá gjá sem hefur myndast á milli höfuðborgar og landsbyggðarinnar. Vonandi verður þá hægt að ræða þau málefni sem að landsbyggðinni snúa á málefnalegri hátt en hefur verið. Þegar landsbyggðarþingmaður opnar munninn er það sem hann segir oft afgreitt eins og um kjördæmapot sé að ræða og nú eru menn farnir að tala um höfuðborgarpot. Vandamálið við svona umræðu er að hún skilar okkur ekki neinu, við komumst ekkert áfram.

Þess vegna fagna ég því sérstaklega að þetta frumvarp er komið fram. Ég hef sjálfur í hyggju að leggja fram frumvarp og það hefur staðið til frá því í haust. Það er í vinnslu á Alþingi. Mér skilst að þeirri vinnu sé lokið, þ.e. tæknilegri úrvinnslu. Ég hef lagt það fram ítrekað frá því að ég tók sæti á Alþingi á árinu 2007. Þessi málaflokkur hefur verið mér mjög hugleikinn. Mínar tillögur felast í því að flutningsaðilar fái greiddan helming af því olíu- og bensíngjaldi sem þeir þurfa að greiða og ekki verði búin til nein sérstök svæði. Ég tel reyndar að það sé sanngjarnasta leiðin.

Ég hef heyrt menn tala um það varðandi frumvarpið sem hér um ræðir að það sé ósanngirni í þessum svokölluðu svæðum sem lögð eru til eða því að menn fái greiddan styrk ef þeir búa utan 245 km og séu þá á 1. svæði og fái 10% endurgreiðslu miðað við að lengd ferðar sé 245–390 km en 20% ef ferðin er lengri en 390 km. Nú eru akkúrat 388 km á milli Reykjavíkur og Akureyrar, vegalengdin er mæld frá pósthúsi til pósthúss. Það getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir einstök framleiðslufyrirtæki hvort þau fá 10% eða 20% endurgreiðslu. Ég hef líka fyrir því heimildir að Blönduós muni akkúrat detta út.

Ég held að menn ættu frekar að líta á það frumvarp sem ég hyggst leggja fram á næstu dögum. Ég held að það sé sanngjarnara. Ég held að betri sátt muni nást um það. Það er í samræmi við tillögur Framsóknarflokksins til margra ára.

Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta frumvarp. Ég vona að frumvarpið sem ég legg fram verði rætt í nefnd um leið og það frumvarp sem hér er til umræðu. Ég held að það sé hægt að bæta frumvarpið sem kemur frá ríkisstjórninni mikið ef menn eru reiðubúnir að skoða tillögur frá öðrum flokkum.

Hv. þm. Kristján Möller ræddi hér um sjóflutninga. Hópur manna virðist líta sjóflutninga rómantískum augum. Ég held hins vegar að ef þannig flutningar mundu borga sig hefði einhver flutningsaðili tekið þá upp nú þegar. Ég sé ekki fyrir mér að ríkisstjórnin ætli að fara sérstaklega í slíka flutninga. Hv. þingmaður sagði að niðurgreiða mætti þá flutninga en ég held að menn ættu frekar að gera betur en lagt er til í þessu frumvarpi.

Ég ítreka samt að ég fagna því að loksins er komið frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun. Þetta getur skipt landsbyggðina gríðarlega miklu máli. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig neitt sérstaklega vel þegar kemur að hinum dreifðari byggðum landsins (Gripið fram í: Alveg hörmulega.) og í sjálfu sér hörmulega, eins og kallað er fram í úti í sal.

Í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, eru mörg mál sem bíða afgreiðslu, mörg tækifæri. Við horfum fram á að væntanlega verði komið á fót umskipunarhöfn þegar siglingar hefjast á norðurslóðum. Það mun væntanlega gerast fyrr en vonir hafa staðið til sem er mikið fagnaðarefni. Mér finnst hins vegar ríkisstjórnin hafa dregið lappirnar í því málefni. Aðrir hugsa sér líka gott til glóðarinnar og við lendum væntanlega í samkeppni við lönd eins og Noreg og Holland um að fá þessa umskipunarhöfn til okkar.

Þá eru miklar vonir bundnar við að það finnist olía á Drekasvæðinu og hægt verði að fara að vinna hana. Það mun skapa mikil umsvif á norðausturhorninu og væntanlega gera það að verkum að atvinnuástandið þar batni, ekki veitir af, við höfum þurft að horfa upp á mikla fólksfækkun. Staðan er þannig að ef menn missa vinnuna þá flytja þeir einfaldlega í burtu og það er ástæðan fyrir því að norðaustursvæðið hefur verið kallað kalt í atvinnulegu tilliti.

Þetta er skref í rétta átt, virðulegi forseti, en ég vona að þessum svæðum verði breytt og að 10% og 20% endurgreiðslan verði hækkuð eða færð til samræmis við það sem ég legg til í því frumvarpi sem lagt verður fram hér á næstu dögum.