140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[16:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ástæða er til að fagna því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram af hálfu efnahags- og viðskiptaráðherra, frumvarpi til laga um svæðisbundna flutningsjöfnun. Það hefur verið áralangt baráttumál okkar framsóknarmanna að stuðla að því að jafna aðstöðumun fólks í landinu, að veita fólki jöfn tækifæri og veita atvinnulífinu og fyrirtækjum í landinu jöfn tækifæri.

Markmið þessara laga er samkvæmt 1. gr. að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði. Allt er þetta gott og gilt.

Hér er kveðið á um að flutningsjöfnunarstyrkir geti verið 10% eftir fjarlægðarmörkum eða jafnvel 20% þar sem sérstök svæði eru skilgreind sem er Vestfjarðakjálkinn, þ.e. sveitarfélög eða byggðarkjarnar þar sem lengd ferðar fer yfir 391 km.

Ég átta mig á því og skil aðstæður sem íbúar og atvinnulíf á Vestfjörðum býr við þegar kemur að háum flutningskostnaði en við upphaf þessarar umræðu hljótum við að velta því fyrir okkur hvort þetta geti ekki átt við önnur svæði á landinu, að þau búi við hliðstæð vandamál og byggðarlög sem flokkuð eru á svæði 2. Þar vil ég nefna sérstaklega norðausturhorn landsins. Við þingmenn höfum fundið það þegar við höfum ferðast um sveitarfélög á því svæði, t.d. byggðarkjarna eins og Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörð, hversu gríðarlega íþyngjandi flutningskostnaður er fyrir atvinnulíf þar og fólk sem býr í þessum byggðarlögum. Ég vil meina það, frú forseti, að þar sem þessir byggðarkjarnar eru lengst allra byggðarkjarna í landinu frá höfuðborgarsvæðinu, sé eðlilegt að við veltum upp þeirri spurningu: Hvers vegna í ósköpunum eru þessir byggðarkjarnar ekki flokkaðir undir svæði 2 í ljósi þess að við erum að tala um réttlætismál.

Því fylgir gríðarlegur kostnaður að vera búsettur svo langt frá höfuðborgarsvæðinu eins og í þessum tilvikum og þegar svo lofsvert framtak kemur fram frá stjórnvöldum um að nú eigi að hefja greiðslur samkvæmt svæðisbundinni flutningsjöfnun þá lendir þetta svæði, norðausturhorn landsins, ekki í þeim flokki þar sem tekið er tillit til þess að kostnaðurinn er svo hár sem raun ber vitni.

Þetta mál hefur lauslega verið reifað í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og mun eftir þessa umræðu fara til meðhöndlunar í nefndinni og mér sýnist að þar megi margt bæta og margt þurfi að skoða. Ég vil beita mér fyrir því meðal annars að við fjölgum byggðarkjörnum sem falla undir svæði 2 sem eiga rétt á 20% flutningsjöfnunarstyrk, sérstaklega í ljósi landfræðilegrar legu og fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu eða útflutningshöfn eins og á við um norðausturhorn landsins.

Við höfum líka fengið ágætar ábendingar, m.a. frá Gunnlaugi Sighvatssyni, framkvæmdastjóra Hólmadrangs ehf. Hann kemur með mjög athyglisverð sjónarmið inn í þessa umræðu sem veitir ákveðna vísbendingu um að við samningu frumvarpsins hafi menn haft heildaráhrif þessara framkvæmda og að taka tillit til allra sjónarmiða að leiðarljósi. Ég veit að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og þingmaður þess ágæta kjördæmis þar sem þetta mikilvæga fyrirtæki er starfrækt, mun vafalaust fara yfir þau sjónarmið.

En til að árétta það sem er í raun og veru inntak ræðu minnar, við eigum svo eftir að fara ítarlega ofan í þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd, finnst mér rétt að við ræðum opinskátt við 1. umr. um það óréttlæti sem mér sýnist endurspeglast í þessu frumvarpi ef við tölum um erfiða stöðu á Vestfjörðum — ég endurtek að það er mjög brýnt að styðja við Vestfirðinga, bæði heimili og atvinnulíf þar — og horfum síðan fram hjá því að byggðarlög í nákvæmlega sambærilegri stöðu, byggðarlög á norðausturhorni landsins, Vopnafjörður, Þórshöfn, Raufarhöfn, jafnvel Kópasker og við getum haldið áfram, sem eru hvað fjærst höfuðborgarsvæðinu, fari ekki í svæðisflokk 2. Slíkt get ég einfaldlega ekki réttlætt. Ég get ekki stuðlað að samningu slíks frumvarps frá Alþingi, að við sendum það sem lög héðan að þessi byggðarlög skuli ekki njóta sambærilegra réttinda og Vestfirðir. Það er margt mjög líkt með atvinnulífi á norðausturhorni landsins og á Vestfjörðum og hvað varðar fólksfjöldaþróun. Það hefur því miður orðið gríðarleg fækkun í störfum og íbúafjölda á norðausturhorni landsins rétt eins og á Vestfjörðum. Með þessu frumvarpi hélt ég við ætluðum að snúa úr vörn í sókn og því er einfaldlega réttlætismál að við breytum frumvarpinu. Vonandi náum við samstöðu um það í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að fjölga byggðarkjörnum sem heyra undir svæði 2 áður en við afgreiðum málið úr nefnd og til afgreiðslu á Alþingi.

Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með þá viðleitni sem hér kemur fram í að jafna aðstöðumun íbúa og atvinnulífs á landsbyggðinni við höfuðborgarsvæðið. Við þekkjum það að verð á matvöru og öðrum aðföngum sem heimili og fyrirtæki eftir atvikum þurfa að afla sér í gegnum útflutningshafnir eða frá suðvesturhorninu er mun hærra en á suðvesturhorni landsins. Við þekkjum það líka að vegna vegalengda í hinum dreifðu byggðum landsins þarf fólk þar að eyða mun hærri fjármunum í mjög dýrt eldsneyti, dísilolíu og bensín. Loks eru þessi svæði oftar en ekki svokölluð „köld svæði“ þar sem íbúar greiða í sumum tilvikum margfalt hærri reikninga fyrir að hita upp húsnæði sitt. Því er ljóst að fólk á þessum svæðum borgar í raun og veru mun hærri skatta og/eða eftir atvikum gjöld til að framfleyta sér.

Þetta frumvarp miðar að því að jafna lífskjörin í landinu og það styð ég en ég hefði hins vegar viljað ganga lengra en frumvarpið kveður á um. En um leið og ég fagna frumvarpinu sé ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem flytur þetta mál, standa hér í hliðarsal og því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þau byggðarlög sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu voru ekki sett í svæðisflokk 2. Þá er ég að tala um byggðarlög eins og Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafjörð, Bakkafjörð. Það er alveg ljóst að þetta svæði, norðausturhorn landsins, glímir við nákvæmlega sömu þróun og hefur átt sér stað á Vestfjörðum á undangengnum árum og áratugum, þ.e. að fólki hefur fækkað, störfum hefur fækkað. Hvers vegna í ósköpunum leggjum við þá til í þessu frumvarpi að einu svæði sé hyglað umfram annað þó að þau séu í nákvæmlega sambærilegri stöðu? Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að það sé tilefni til að skoða hvort við eigum ekki að fjölga byggðarlögum í svæðisflokki 2 til að jafna aðstöðumuninn á milli þessara svæða?

Að þessu sögðu vil ég enn og aftur lýsa yfir ánægju minni með frumvarpið sem hér er komið fram. Þetta er spor í rétt átt, þetta er réttlætismál. Ég trúi því að við getum, sama hvar í flokki við stöndum, staðið að því að afgreiða þetta mál sem lög frá Alþingi og þannig vonandi lækkað flutningskostnað á landsbyggðinni sem hefur verið atvinnulífinu og fólki sem þar býr mjög íþyngjandi á undangengnum árum. En ég vil líka sjá breytingar á þessu frumvarpi í réttlætisátt og vonandi munum við ná samstöðu um það vegna þess að við hljótum að vera sammála um að við þurfum að jafna lífskjörin í landinu eftir landshlutum. Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra um að svara þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hann áðan, þ.e. hvers vegna norðausturhorn landsins, sem er það svæði sem er lengst frá höfuðborgarsvæðinu og eftir atvikum útflutningshöfnum, falli ekki undir svæðisflokk 2. Það er mjög mikilvægt að fá það fram í þessari umræðu og áður en við í efnahags- og viðskiptanefnd förum að vinna að þessu máli sem verður eftir því sem ég best veit strax á morgun.

Ég fagna frumvarpinu og við framsóknarmenn styðjum alla viðleitni í þeim efnum að jafna lífskjörin í landinu og bæta aðstöðu fólks og fyrirtækja í hinum dreifðu byggðum.