140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

371. mál
[17:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu um þetta mál og þann mikla samhljóm sem um það er í þinginu. Nokkrar spurningar hafa komið fram í umræðunni en fyrst mun ég ræða um rökin fyrir flutningsjöfnunarkerfi af þessum toga.

Menn velta upp því álitamáli hvort hér sé verið að skekkja samkeppnisaðstæður, hvort fyrirkomulag sem þetta sé réttlætanlegt. Ég bendi á fordæmi frá nágrannalöndum okkar, þá sérstaklega frá Svíþjóð og Noregi, þar sem kerfi af þessum toga hafa verið til, en þau byggja þá alltaf á efnislegum viðmiðum. Það eru alltaf efnislegar forsendur sem ráða framlögunum og það er mjög nauðsynlegt að við temjum okkur að skilja að atvinnustefnu og byggðastefnu, sem okkur hefur sjaldnast auðnast að gera á Íslandi en er mjög brýnt. Þetta er mjög gott dæmi um byggðastefnu að því leyti að hér er verið að styðja við sjálfbæra atvinnustarfsemi í byggðum landsins án þess að verið sé að taka eina atvinnugrein umfram aðra eða að veita fyrirgreiðslu með ómálefnalegum hætti.

Stærsta álitamálið sem ég hef orðið var við í þessari umræðu er af hverju gert er ráð fyrir að tiltekin svæði á Vestfjörðum fái aðra meðhöndlun en svæði sem jafnvel eru fjær höfuðborginni. Menn spyrja: Hvað með sveitarfélög á norðausturhorninu sem fjær höfuðborginni en þessi svæði á Vestfjörðum?

Þá er því til að svara að eins og fram kemur í greinargerðinni með frumvarpinu er það niðurstaða greiningar sem við höfum gert á raunverulegum flutningskostnaði að það verði sérstakt fall í tilviki Vestfjarða á þann veg að flutningskostnaður á Vestfjörðum er ekki sambærilegur við flutningskostnað að jafnlengd á öðrum stöðum. Af þeirri ástæðu er ekki skynsamlegt að beita bara línulegri viðmiðun.

Hverju þar er um að kenna er erfitt að segja. Auðvitað dettur manni ýmislegt í hug, hér hefur verið nefnt slit á flutningatækjum vegna bágs ástands vega. Það er mjög líklegt að það sé líka minni samkeppni á leiðunum, það séu færri fraktaðilar sem taki að sér flutningana og þar af leiðandi sé verðið hærra. Það má velta ýmsu upp.

Við höfum kosið að taka enga efnislega afstöðu til þess af hverju þetta er svona heldur horfa bara á staðreyndirnar, að þetta er svona, og bregðast við þeim. Því er gert ráð fyrir að það sé möguleiki fyrir þessi sveitarfélög að fá meira út úr þessu kerfi. Það byggir líka á norskum og sænskum fyrirmyndum þar sem menn horfa á raunflutningskostnaðinn. Það er hins vegar mikilvægt að passa að menn festi þá ekki í sessi samkeppnisannmarka og þess vegna er mjög áríðandi að endurmeta kerfið og þróunina þannig að hægt sé að taka á því. Verður þetta áfram svona eftir ár, eftir tvö ár? Hvernig þróast raunflutningskostnaðurinn? Auðvitað er hætta á að kerfi sem þetta leiði til samsvarandi hækkunar á flutningskostnaði, þ.e. að flutningafyrirtækin taki þetta til sín. Þar þurfum við að fylgjast með og fara mjög vandlega yfir stöðuna.

Hér hefur líka verið spurt um fyrirkomulag olíuverðjöfnunarsjóðs og hvernig við hugsum það í þessu samhengi. Því er til að svara að það fyrirkomulag er til endurskoðunar. Ég held að það hafi lifað sinn tíma, það er í sjálfu sér orðið næstum því jafndýrt að viðhalda fyrirkomulaginu og að breyta kerfinu og er eðlilegt að við leggjum það kerfi af í framhaldinu.

Varðandi forsendurnar að öðru leyti sem hér eru lagðar til grundvallar vil ég segja að ég skil alveg að menn hafi áhyggjur af einstökum svæðum, en við höfum lagt til grundvallar tölur um raunkostnað á ákveðnum svæðum. Ef einhver heldur að þar liggi eitthvað annað að baki en raunveruleg greining þurfa menn ekki að óttast það. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að hygla Vestfjörðum, ég er 1. þm. Suðvesturkjördæmis og ég er ekki einu sinni ættaður af Vestfjörðum. Ef Snæfellsnes hefði komið þarna vel út hefðu menn svo sem getað lagt saman tvo og tvo og fengið út fjóra en það er engin ástæða til að gera það í tilviki Vestfjarða.

Ég legg áherslu á að niðurstaðan byggir á efnislegri greiningu á raunkostnaði við flutninga.

Að síðustu hlakka ég til að sjá nefndina taka á málinu. Ég tek eftir að það er mikil samstaða um að málið verði afgreitt eins hratt og mögulegt er. Ég fagna því. Við erum að stíga fyrsta skrefið í nýju umhverfi flutningsjöfnunar en það er líka mjög mikilvægt að við pössum að kerfið verði ekki til þess að skekkja samkeppnisaðstæður eða til þess að veikja til lengri tíma samkeppni um flutninga á landsbyggðinni. Það er mikilvægt að það verði ekki til þess að ríkið fari í reynd að niðurgreiða flutningsstarfsemina þannig að flutningafyrirtækin taki þetta til sín en fólkið og fyrirtækin sem borga fraktina sitji uppi með sömu reikningana og áður.