140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga.

257. mál
[17:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga. Með lögum nr. 13 frá 16. mars 1949 var Sambandi íslenskra berklasjúklinga heimilað að stofnsetja og reka vöruhappdrætti og gilti heimildin í tíu ár. Hefur sú heimild síðan verið framlengd um tíu ár í senn, nú síðast með lögum nr. 146 19. desember 2007 til ársloka 2018. Með frumvarpi þessu er lagt til að happdrættinu verði veitt heimild til að auka hlutatölu happdrættisins, fjölda miða, úr 75 þús. hlutum í 80 þús. hluti. Er það til samræmis við heimild sem happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna sem einnig rekur flokkahappdrætti hefur haft í langan tíma. Happdrættið hefur óskað eftir þessari breytingu og mun hún ekki hafa áhrif á hlutfall vinninga enda er það bundið í lögum um happdrættið. Hins vegar mun heildarfjárhæð vinninga hækka í samræmi við aukinn miðafjölda.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.