140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

vitamál.

345. mál
[17:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999.

Með frumvarpi þessu legg ég til að þær breytingar verði gerðar á lögum vitagjald að gjaldið hækki um 5% í rúmar 136 kr. af hverju brúttótonni skips og að lágmarksgjald verði jafnframt hækkað um 5% í 5.145 kr. Fjárhæð vitagjalds og lágmarksgjalds var síðast breytt í desember 2010. Við meðferð málsins í þinginu á þeim tíma kom fram að mikilvægt væri að hækka gjaldið örar og þá um lægri fjárhæð í hvert sinn frekar en sjaldnar og þá sem næmi hærri fjárhæð. Er efni þessa frumvarps í samræmi við þá umræðu.

Á árinu 2011 var álagt vitagjald á íslensk skip 32.092.518 kr. Verði gjaldið hækkað um 5% má áætla að álagt vitagjald á íslensk skip verði á árinu 2012 33.697.144 kr. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012 er vitagjald áætlað 257,7 millj. kr. Verði vitagjaldið hækkað um 5% má ætla að á árinu 2012 innheimtist um 270,6 millj. kr. í vitagjald miðað við óbreytta skipaumferð og stærð flota.

Ég vek athygli á því sem ég lagði hér áherslu á að vitagjöldin munu fara í um 270 millj. kr. en hvað varðar íslensk skip er um að ræða rúmar 33 millj. kr. Með öðrum orðum leggst gjaldið fyrst og fremst á erlend skip og er þá horft til stærðar skipsins. Þau skip sem einkum er hér um að ræða eru skemmtiferðaskip sem eru sem betur fer farin að heimsækja Ísland nokkuð títt.