140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skráning og mat fasteigna.

361. mál
[17:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að tvær breytingar verði gerðar á 24. gr. laganna. Lagt er til að c-liður 2. mgr. verði felldur brott en í því ákvæði segir nú að í gjaldskrá skuli kveðið á um gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók.

Er lagt til að í stað þessa bætist ný málsgrein við ákvæðið, svohljóðandi:

„Gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók er 850 kr. og rennur það óskipt til Þjóðskrár Íslands.“

Er þannig lagt til að ákvæði um gjald fyrir rafrænt veðbandayfirlit verði fært úr gjaldskrá nr. 1174/2008, um þjónustu vegna Fasteignaskrár Íslands, í lög nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt nefndri gjaldskrá er gjald fyrir vélrænar fyrirspurnir úr þinglýsingabók 630 kr. og hefur gjaldið verið óbreytt frá 1. janúar 2009. Lagt er til að gjaldið hækki í 850 kr. og renni óskipt til Þjóðskrár Íslands eins og verið hefur.

Jafnframt er tiltekið í athugasemdum með frumvarpinu að verði frumvarpið að lögum verði tekjuaukinn sem áætlaður er, 29 millj. kr. ári, notaður til að gera nauðsynlegar endurbætur á tölvukerfum sýslumannsembættanna, sem flest eru komin til ára sinna, en Þjóðskrá Íslands annast rekstur starfs- og upplýsingakerfa sýslumannsembætta.

Í athugasemdum við frumvarpið er að finna áætlun til næstu þriggja ára um þróun nauðungarsölukerfis, aðfararkerfis, sifjakerfis og málaskrárkerfis. Telja innanríkisráðuneytið, Sýslumannafélag Íslands og Þjóðskrá Íslands vera þörf á framangreindu fjármagni til þróunar og umbóta á þessu sviði.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 29. apríl 2011 í máli 5796/2009 komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að skort hafi á að setning gjaldskrár nr. 1174/2004 hefði verið reist á traustum og vönduðum útreikningi á þeim kostnaðarliðum sem stæðu í nánum og efnislegum tengslum við að veita hið sérgreinda endurgjald, þjónustugjald samkvæmt c-lið 2. mgr. 24. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Umboðsmaður beindi því þeim tilmælum til ráðuneytisins að tekið yrði til athugunar hvort ástæða væri til að endurskoða fjárhæðir einstakra gjalda í gjaldskránni með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu. Lagt er til að gjald að þessu leyti verði fært inn í lögin. Hér er verið að verða við þessum tilmælum.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.