140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun.

362. mál
[18:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka undir ábendingar hv. þm. Péturs H. Blöndals varðandi friðhelgi einstaklingsins og persónuverndina og mannréttindin sem hann skírskotar til. Þar er ég honum algerlega sammála. Það er einmitt lögð áhersla á þetta í frumvarpinu. Hættan sem við stöndum frammi fyrir er að mínum dómi ekki fyrst og fremst sú að hið miðstýrða vald fari að misnota kerfin, heldur að óprúttnir aðilar eiga þess kost að brjótast inn í þessi kerfi og rjúfa friðhelgi einkalífsins. Það sem við erum að tala um hér er að slá upp varnarmúr fyrir einstaklinga, fyrirtæki, fyrir íslenskar stofnanir og íslenska ríkið, fyrir samfélag okkar. Um það snýst þetta viðbragðsteymi sem aðrar þjóðir eru einnig að koma á fót. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að sjálfsögðu að vera á varðbergi gagnvart þessu.

Hitt atriðið sem hann nefnir verðskuldar að sjálfsögðu mikla umræðu. Hvernig ætlum við að haga þessum málum til frambúðar? Við höfum rætt það mikið í innanríkisráðuneytinu og við þá aðila sem tengjast þessu á einn eða annan hátt, hvaða fyrirkomulag við eigum að hafa. Eigum við að ráðstafa þessum tíðnum með skilyrðum, eða eigum við að fara í uppboð og reyna að ná sem mestum fjármunum í sameiginlegan sjóð? Það held ég að sé hyggilegri leið, að láta einfaldlega þá sem njóta þjónustunnar greiða eins mikið og við fáum með slíku fyrirkomulagi til að geta hraðað uppbyggingu í dreifðum byggðum landsins þar sem þjónustan er ekki fyrir hendi.