140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

fjarskipti og Póst- og fjarskiptastofnun.

362. mál
[18:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta þingmál fer til hæstv. samgöngunefndar (Gripið fram í: Nú.) til umfjöllunar og formaður nefndarinnar situr hér í salnum, til að leiðrétta þennan misskilning.

Ég vil geta þess að í 6. eða 7. gr. frumvarpsins er kveðið á um það að tíðnirnar eru auðlindir, það er litið á þær sem auðlindir í eigu þjóðarinnar. Hvað varðar úthlutun þeirra er hún tímabundin í 10–15 ár. Nú kannast ég svolítið við minn gamla félaga úr umræðu undangenginna ára, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann telur mig vera kominn á markaðsbuxur. Það er mikill misskilningur, en ég er ekki á neinum kreddubuxum. Það var hv. þingmaður og flokkur hans sem markaðsvæddu kerfi sem hafði skilað gríðarlegum ávinningi í ríkiskassann, auk þess að sjá okkur fyrir ódýrasta símkerfi í heiminum — ódýrasta í heiminum. Það eyðilagði þáverandi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi.

Hvað gerum við þá? Þá reynum við að ná markmiðum okkar, sem er samfélagsþjónusta yfir allt landið, með öðrum hætti. Þá búum við til annað kerfi ef við getum ekki undið ofan af þessari öfugþróun og reynum við að ná sömu markmiðum með öðrum hætti. Það er það sem við erum að gera með því að setja á laggirnar fjarskiptasjóð; veita fjármuni fyrir útboð á tíðnum í þann sjóð til að byggja upp kerfið. Með öðrum orðum, ná þessum markmiðum með öðrum tækjum og tólum. Þau eru ekki eins góð en við verðum að notast við þau eftir að ríkisstjórn (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins eyðilagði það kerfi sem við höfðum búið við og tryggði okkur ódýrasta símkerfi í heiminum.