140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[18:41]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls en finn mig þó knúna til að ræða aðeins við hv. þingmenn. Sérstaklega út frá orðum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar hefði mér þótt sanngjarnt að hann hefði nefnt þá staðreynd að grunnframfærsla námsmanna hefur hækkað um þriðjung frá því að sú sem hér stendur tók við embætti, þ.e. úr 100.600 kr. mánaðarlega í 132 þúsund. Við skulum halda því til haga að á árinu 2009 var framfærslan enn lægri.

Ég get þó tekið undir það hjá hv. þingmanni að vitaskuld þarf að skoða þau mál áfram. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður situr í hv. allsherjar- og menntamálanefnd en það væri mjög gott ef hann gerði það því að þar munu málefni lánasjóðsins koma til umræðu vonandi á næstu önn. Það er starfandi endurskoðunarnefnd um lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þau því að ég er sammála hv. þingmanni, eins og við höfum rætt áður hér í þessum sal, um að það skiptir miklu máli að kerfið hvetji námsmenn til dáða, hvetji fólk í nám.

Við verðum samt líka að muna það sem hefur verið gert fyrir menntakerfið. Ég nefni sem dæmi átakið Nám er vinnandi vegur sem felur í sér 7 milljarða á þremur árum inn í menntakerfið. Við getum líka nefnt framlög til háskólanna. Hins vegar viðurkenni ég, og það vita allir í þessum sal, að það hefur verið skorið niður til háskólanna á sama tíma og kostnaður hefur aukist sem er ástæðan fyrir því að hér er lögð til þessi þriðjungshækkun. Eins og ég sagði áðan var gjaldið síðast hækkað árið 2005 og hækkaði þá um þriðjung líka, úr 32 þús. kr. í 45 þús. kr. Það segir okkur að því er oft frestað að taka ákvörðun um að láta gjöld sem eru með þessum hætti bundin í lög fylgja verðlagi. Eins og ég kom að í ræðu minni áðan hefur það verið staðfest að þetta gjald teljist þjónustugjald, og hinir opinberu háskólar hafa lagt fram ágætisrök fyrir því máli sínu að kostnaður þeirra hafi aukist, m.a.s. líklega upp í einar 62 þús. kr. á hvern nemanda.

Ég get tekið undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að það er mjög mikilvægt að við horfum á stöðu námsmanna og gerum það besta fyrir þá, en ég lít líka svo á að á sama tíma og grunnframfærslan hefur hækkað um þriðjung kemur þessi hækkun og hún er þriðjungur líka. Það er spurning hvernig við lítum á það. Við getum síðan tekið prinsippumræðuna um það hvort yfir höfuð eigi að vera skráningargjöld. Þau eru ekki alls staðar. Þetta er það kerfi sem við höfum komið okkur upp en umræðu um það ættum við að eiga við betra tækifæri þegar við ræðum almennt um hinar stóru línur í háskólamálunum.