140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

efling tónlistarnáms.

383. mál
[18:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að eftirfarandi verkefni verði færð frá ríki til sveitarfélaga á gildistíma samkomulags sem undirritað var 5. október 2011 um tímabundna breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Í fyrsta lagi vil ég þar nefna fjármögnun endurmenntunarsjóðs grunnskóla, samanber ákvæði til bráðabirgða II við lög um grunnskóla, nr. 91/2008.

Í öðru lagi fjármögnun og rekstur námsgagnasjóðs, samanber 6. gr. laga um námsgögn, nr. 71/2007.

Í þriðja lagi fjármögnun varasjóðs húsnæðismála, samanber samkomulag frá 23. nóvember 2010.

Í fyrrgreindu samkomulagi frá 5. október síðastliðnum segir að framlag ríkisins vegna tónlistarfræðslu fyrir haustönn 2011 sé ekki háð því að fyrirhugaðar lagabreytingar hafi tekið gildi. Í 2.–4. gr. frumvarpsins er kveðið á um tímabundna fjármögnun ofangreindra verkefna með þeim hætti að framlög sveitarfélaga verði innheimt af úthlutun framlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á síðastliðnu ári.

Önnur verkefni sem sveitarfélögin taka tímabundið yfir fjármögnun á kalla ekki á breytingar á sérlögum en í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að við lög um tekjustofna sveitarfélaga verði bætt bráðabirgðaákvæði til að kveða á um fjármögnun þeirra verkefna í samræmi við ákvæði samkomulagsins. Um er ræða eftirfarandi verkefni:

1. Sumardvalarheimili í Reykjadal, samanber fjárlagalið 08-809 1.35.

2. Tölvumiðstöð fatlaðra, samanber fjárlagalið 08-809 1.15.

3. Vistheimilið Bjarg, samanber fjárlagalið 08-809 1.36.

4. Uppgjör á uppsöfnuðum og óafgreiddum endurgreiðslubeiðnum sveitarfélaga á virðisaukaskatti vegna kaupa á slökkvibúnaði, samanber fjárlagalið nr. 09-999 1.20.

Þrjú þeirra verkefna sem hér um ræðir tengjast samkomulagi sem tók gildi 1. janúar 2011, um yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga, en af ýmsum ástæðum voru þessi verkefni þá undanskilin við gerð heildarsamkomulags um þá verkefnatilfærslu. Gengið er út frá því að fjárhæðir til ofangreindra verkefna verði í samræmi við fylgiskjal með umræddu samkomulagi frá 5. október 2011 og að jöfnunarsjóður innheimti kostnað vegna þeirra af úthlutun framlaga sjóðsins til sveitarfélaga í hlutfalli við íbúafjölda 1. desember á síðastliðnu ári.

Tilurð frumvarps þessa má rekja til samkomulags ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga sem undirritað var hinn 13. maí síðastliðinn, um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms Í samkomulaginu er lagður grundvöllur að eflingu tónlistarnáms með fjárstuðningi ríkissjóðs við kennslukostnað í tónlistarskólum sem ætlað er að gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi, óháð búsetu. Jafnframt er í samkomulaginu og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þess leitast við að jafna aðstöðumun annarra nemenda á öðrum stigum til tónlistarnáms óháð búsetu með því að jöfnunarsjóður greiði hluta kennslukostnaðar á móti því sveitarfélagi þar sem nemandi á lögheimili. Á gildistíma þessa samkomulags veitir ríkissjóður framlag að fjárhæð 480 millj. kr. á ársgrunni vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Í 2. mgr. 4. gr. samkomulagsins er mælt fyrir um að kveða skuli á um stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í reglugerð sem ráðherra sveitarstjórnarmála, hæstv. innanríkisráðherra, gefur út. Jafnframt er kveðið á um að viðræður um framlengingu og endurskoðun samkomulagsins skuli hefjast eigi síðar en 1. júní 2012.

Framlag ríkissjóðs skal greiðast til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í jöfnum mánaðarlegum greiðslum og nemur það á samningstímanum samtals 1.040 millj. kr. Á móti skuldbinda sveitarfélög sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nema 230 millj. kr. á ársgrunni. Heildargreiðslur þeirra verkefna sem sveitarfélögin taka yfir nema 498 millj. kr. yfir samningstímann. Vegna þessara verkefna var ákveðið að gert yrði sérstakt samkomulag um verkefnatilfærslu milli ríkis og sveitarfélaga og á því samkomulagi byggja þau lög sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu.

Rétt er að fram komi að í forsendum samkomulagsins frá 13. maí síðastliðnum var gengið út frá tveimur meginforsendum: Í fyrsta lagi að tónlistarnemendur sem nytu stuðnings samkvæmt samkomulaginu væru um það bil 711 og var í því efni byggt á þeirri bestu fáanlegu tölfræði sem ríki og sveitarfélög höfðu aðgang að. Í öðru lagi að komandi kjarasamningar sveitarfélaga við Félag tónlistarskólakennara og Félag íslenskra hljómlistarmanna mundu leiða af sér 2–3% hækkun launa. Þær forsendur hafa hins vegar breyst því að fjöldi nemenda sem sótt hefur verið um stuðning fyrir er núna 822. Kjarasamningurinn fól í sér mismunandi hækkanir en allt að 20% kostnaðarauka fyrir suma tónlistarskóla.

Rétt er að minna á að þrátt fyrir þetta samkomulag bera sveitarfélög enn sömu skyldur gagnvart nemendum og kveðið er á um í lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, og lítum við svo á að samkomulagið snúist fyrst og fremst um fjárstuðning ríkisins við þetta nám.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.