140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[18:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara.

Þegar eftir stofnun embættis umboðsmanns skuldara í ágúst 2010 vöknuðu spurningar um hvernig standa bæri að framkvæmd 5. gr. laga um umboðsmann skuldara þar sem mælt er fyrir um greiðslu gjalds vegna reksturs umboðsmanns skuldara. Hv. félags- og tryggingamálanefnd lagði til breytingar á gjaldtökunni þar sem ætlað var að gera ákvæðið skýrara og auðvelda innheimtu gjaldsins. Þrátt fyrir framangreinda breytingu hefur áfram ríkt nokkur óvissa um hvernig standa skuli að álagningu gjaldsins auk þess sem upplýsingaöflun hefur reynst flóknari en gert var ráð fyrir.

Samkvæmt gildandi lögum skulu lánastofnanir, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður greiða gjaldið í hlutföllum við umfang útlánastarfsemi sinnar í lok næstliðins árs. Þannig miðast gjaldtaka vegna ársins 2011 við upplýsingar um umfang útlána í lok árs 2010. Í ljósi þessa þurfti að afla upplýsinga um hvaða aðilar teldust lánastofnanir á hverjum tíma sem og skilgreina hvað átt væri við með umfangi útlánastarfsemi. Var leitað aðstoðar Fjármálaeftirlitsins til að fá umræddar upplýsingar og samstarf við stofnunina hefur gengið vel en það hefur reynst mun tímafrekara en áætlað var að afla upplýsinganna. Því hefur álagning gjaldsins dregist nokkuð og hefur ekki verið unnt að fylgja 5. gr. laga um umboðsmann skuldara um tímasetningar og framkvæmd álagningar og innheimtu nákvæmlega. Enn fremur hefur sú gagnrýni komið fram að lánastofnanir sem ekki mega veita einstaklingum lán þurfi að greiða gjald til greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara en dæmi um slíkar stofnanir eru Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun.

Hæstv. forseti. Í ljósi þeirra vandamála sem upp hafa komið við framkvæmd lagaákvæða um gjaldtöku vegna reksturs umboðsmanns skuldara legg ég fram þetta frumvarp. Er því ætlað að gera gjaldtökuna skýrari og skilvirkari ásamt því að styrkja rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Öruggur rekstrargrundvöllur er eitt þeirra meginatriða sem liggja þurfa að baki skilvirkri starfsemi stofnunar af þessu tagi.

Þá tel ég að með þeim breytingum sem lagðar eru til verði tryggt að gjaldtakan uppfylli á hverjum tíma skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir, meðal annars að því leyti að kveðið sé á um álagningarhlutföll og álagningarstofn í lögum.

Álagningu gjalds samkvæmt frumvarpinu er ætlað að standa undir rekstri umboðsmanns skuldara á árinu 2012. Samkvæmt áætlun sem umboðsmaður skuldara hefur unnið er gert ráð fyrir að kostnaður við stofnunina nemi tæpum 1.050 millj. kr. á árinu 2012. Frá stofnun embættisins hafa umboðsmanni skuldara borist 3.790 umsóknir um greiðsluaðlögun einstaklinga. Fjöldi nýrra umsókna dróst verulega saman eftir að tímabundin frestun greiðslna við móttöku umsóknar féll úr gildi 1. júlí 2011. Frá júlímánuði hefur meðaltal umsókna farið úr 250 málum á mánuði í 30 mál á mánuði. Alls voru 3.200 mál í vinnslu í nóvember 2011. Af þeim voru 1.595 mál í vinnslu innan embættis umboðsmanns skuldara þar sem tekin er afstaða til þess hvort samþykkja eigi umsókn eða synja. Enn fremur höfðu 1.605 mál verið samþykkt og voru því í vinnslu hjá umsjónarmönnum þar sem leitast er við að ná samningum við kröfuhafa fyrir hönd skuldara. 590 málum hefur þegar verið lokið.

Gera má ráð fyrir að biðtími eftir afgreiðslu umsókna um greiðsluaðlögun einstaklinga verði tveir til þrír mánuðir á haustdögum 2012, sem er mun styttri biðtími en nú er. Ljóst er að umfang stofnunarinnar er mun meira en gert var ráð fyrir við stofnun hennar í ágúst 2010. Málin eru flókin í vinnslu enda einkenni greiðsluaðlögunarmála að kröfuhafar eru margir. Áætlað er að starfsemi embættisins muni breytast á árinu 2012 þar sem þungamiðja hennar mun færast frá afgreiðslu umsókna um greiðsluaðlögun einstaklinga til gerðar samninga um greiðsluaðlögun ásamt gæðastýringu, eftirliti og þjónustu við umsjónarmenn. Gert er ráð fyrir að fjórir umsjónarmenn verði ráðnir, sem hver um sig hafi allt að fjóra fulltrúa og skrifstofumann, og verður leitast við að færa starfsmenn frá öðrum einingum til þessara starfa eftir því sem þeir uppfylla hæfisskilyrði. Þó er ljóst að óhjákvæmilega mun koma til tímabundinna nýráðninga í tengslum við umsjónarmannakerfið innan embættisins fyrstu mánuði ársins 2012. Á árinu 2012 er gert ráð fyrir að umsjónarmenn innan embættisins ljúki 1 þús. málum en umsjónarmenn utan embættisins ljúki 1.250 málum. Þá hafa um 7 þús. einstaklingar leitað eftir ráðgjöf hjá umboðsmanni skuldara frá stofnun embættisins í ágúst 2010.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aðilar sem hafa leyfi til að veita útlán sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, aðilar sem stunda eignaleigu, sem er leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög standi straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun taki þátt í kostnaði við rekstur stofnunarinnar í ljósi eðlis starfsemi stofnananna en hvorugri þeirra er heimilt að veita einstaklingum lán. Öðrum aðilum sem gert er ráð fyrir að greiði gjald samkvæmt frumvarpinu er heimilt að veita einstaklingum lán. Er þessi takmörkun eðlileg í ljósi þess hlutverks og verkefna umboðsmanns skuldara, sem langflest snúast um ráðgjöf til einstaklinga um það hvernig best sé að haga greiðslu skulda og hvaða leiðir einstaklingum séu færar út úr skuldavanda.

Í frumvarpinu er áfram miðað við að álagningarstofn gjaldsins verði heildarútlán gjaldskyldra aðila. Hugtakið útlán er skilgreint sérstaklega og er átt við bókfært virði útlána og annarra krafna, þar með talið eignarleigusamninga, sem tilgreindar eru undir eignaliðnum útlán í efnahagsreikningi lánastofnana og Íbúðalánasjóðs og undir eignaliðunum veðlán og önnur útlán í efnahagsreikningi lífeyrissjóða og vátryggingafélaga.

Í upphafi var gert ráð fyrir að álagningarstofn gjaldsins tæki mið af útlánum gjaldskyldra aðila til einstaklinga sem ef til vill mætti telja eðlilegra í ljósi hlutverks umboðsmanns skuldara, en eftir nánari athugun þar til bærra opinberra stofnana þótti það ekki fær leið að óbreyttri upplýsingaskyldu fjármálastofnana til umræddra aðila. Mikilvægt þótti að nýta þær upplýsingar sem þegar eru veittar til opinberra aðila.

Í frumvarpinu er lagt til að allir gjaldskyldir aðilar greiði sama hlutfall af álagningarstofni. Er með því leitast við að tryggja sanngjarna skiptingu rekstrarkostnaðar með hliðsjón af umfangi útlána hvers og eins aðila. Þannig mun gjaldskyldur aðili sem hefur hæst hlutfall útlána af heildarútlánum allra gjaldskyldra aðila bera mestan kostnað við rekstur umboðsmanns skuldara. Sá gjaldskyldi aðili sem hefur lægst hlutfall útlána mun hins vegar bera minnstan kostnað. Er þá miðað við fjárhæðir útlána en ekki fjölda þeirra.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við ákvörðun gjaldsins verði það haft að markmiði að mismunur á tekjum og gjöldum umboðsmanns skuldara verði sem minnstur á hverju ári og gjaldskyldir aðilar standi beint undir þeim mismun eða njóti hans. Er því ekki gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði. Þó kann að koma til þess að ríkissjóður þurfi tímabundið að standa undir rekstrarkostnaði að einhverju leyti ef innheimta gengur ekki eins og áætlað var. Sama gildir verði halli á rekstri starfseminnar vegna ófyrirséðra útgjalda. Verður ríkissjóði endurgreitt um leið og rekstrarniðurstaða liggur fyrir og tekið hefur verið tillit til hennar við álagningu gjaldsins. Það er sem sagt ástæða til að undirstrika það að umboðsmaður skuldara er alfarið fjármagnaður af lánastofnun.

Töluverðar líkur eru á því að breyta þurfi hlutföllum álagningar í lögum á hverju haustþingi. Er það gert að því er varðar hlutföll álagningar á eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og hefur reynslan af því fyrirkomulagi verið góð.

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hefur þetta frumvarp meðal annars að geyma mikilvægar breytingar á gildandi fyrirkomulagi gjaldtöku vegna greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara sem gerir gjaldtökuna skýrari og fullnægir stjórnskipulegum reglum um skattlagningu. Í mínum huga er afar mikilvægt að Alþingi afgreiði frumvarpið fyrir lok þingsins þannig að gjaldtaka fyrir árið 2012 geti farið fram samkvæmt frumvarpinu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.